Skapandi hugsun í Ljubljana

Magnús Einarsson félagsfræðikennari fer á námskeið í Ljubljana í Slóveníu.

 

Námskeið um skapandi hugsun í skólum (með hliðsjón af hugmyndum Edward de Bono) In-service training í Ljubljana Slóveníu 4. nóv. -10. nóv. 2018. Á vegum Erasmus+ og Skupina Primera. Laugardaginn 3. nóvember lagði ég upp í ferð til Slóveníu með millilendingu í London. Það var svo um miðnætti sama dag sem ég var kominn á áfangastað í Ljubljana og inn á hótelið sem ég ætlaði að dvelja á næstu vikuna. Námskeiðið byrjaði á móttöku síðdegis sunnudaginn 4. nóvember. 12 manna hópur, sem flestir voru kennarar, samanstóð af fólki sem kom frá Frakklandi (1), Króatíu (3), Lettlandi (3), Spáni (2), Svíþjóð (1) og Þýskalandi/Bandaríkjunum (1). Þessi fyrsti fundur var hugsaður sem „ísbrjótur“ og kynning á þátttakendum. Lagt var upp með að hver og einn segði frá sjálfum sér, menntun, skólanum sínum, vinnunni, áhugaverðum verkefnum sem viðkomandi hefir sinnt eða sinnir og fleira í þeim dúr. Eftir tveggja klukkustunda kynningu meðlima hópsins var farið í dagskrá vikunnar framundan og þátttakendur beðnir um að útlista helstu væntingar og markmið með námskeiðinu.

Mánudagurinn 5. nóvember rann upp. Hópurinn var samankominn kl. 9.00 til að hlýða á inngang um skapandi hugsun og þörfina fyrir að kenna skapandi og uppbyggjandi hugsun í skólum, og ekki síður handa fullorðnu fólki í opinberum stofnunum. Námskeiðið stóð flesta dagana frá því kl. 09.00-14.15 (með tveimur kaffipásum) og síðan var hádegismatur eftir kl. 14.15. Þennan fyrsta dag var farið í frumþætti þess sem kallast PMI, þ.e. að sjá hlutina frá ýmsum sjónarhornum; hverjir eru plúsarnir (P); hverjir eru mínusarnir (M); og hvaða þættir eru áhugaverðir (I). Síðar var farið í að skoða markmiðsbundna hugsun eða tilgang (AGO: Aims, Goals, Objectives) í skapandi hugsun. Kennarinn (trainer), Nastja Muelj, var með innlegg en síðan unnum við í hópum við að leysa verkefni. Við sátum fjögur saman við þrjú borð en vorum sífellt að skipta um borð eftir því sem kennarinn fyrirskipaði. Verkefnin voru krefjandi (brain crackers) og mikið um umræður, skrif á minnismiða og á veggspjöld. Veggspjaldanotkunin var áberandi á þessu námskeiði. Nastja Mulej, M.Sc., er hagfræðingur, félagsfræðingur og boðskiptafræðingur. Hún er eini þjálfarinn í Slóveníu sem kennir aðferðir de Bono um skapandi hugsun í skólum og stofnunum. Hún hefur skrifað margar greinar um efnið og er eftirsóttur fyrirlesari. Eftir hádegisverð var síðan skoðunarferð um Lubljana með leiðsögn og síðar var sameiginlegur kvöldverður fyrir hópinn.

Þriðjudagurinn 6. nóvember byrjaði þó eilítið fyrr, eða kl. 08.30, því ferðinni var heitið til borgarinnar Maribor sem er næststærsta borg Slóveníu og liggur í norðausturhluta Slóveníu, ekki langt frá landamærum Austurríkis.

Við sátum ekki auðum höndum þessar 90 mínútur sem það tók að keyra í rútu. Það voru unnin hópverkefni alla leið. Í Maribor heimsóttum við tækniskóla (nemendur 15-19 ára) og áður en við fengum að fara í kennslustund hjá nemendum þá vorum við sjálf í kennslustund. Hér var verið að fara yfir frumþætti þess sem kallast CAF (Consider All Factors) í skapandi hugsun. Síðan var farið í kennslustund hjá kennaranum Ramona Arnus og fylgst með því hvernig hún lét nemendur leysa verkefni með PMI, AGO og CAF. Hádegisverður kl. 14.15, og síðan frítími í Maribor til kl. 17.00. Koma til Ljubljana kl. 18.30.

Miðvikudaginn 7. nóvember kl. 09.00 var fyrst farið í frumþætti OPV (Other People’s View) með tilheyrandi verkefnum og síðar eftir kaffihlé var farið í frumþætti APC (Alternatives, Possibilities, Choices). Hádegisverður var í fyrra lagi eða kl. 12.15 enda var verið að leggja upp í ferð til Bled norðvestur af Lubljana. Stöðuvatnið Bled og umhverfi þess er ægifagur staður líkt og stöðuvatnið Bohinj og umhverfi sem er skammt undan í þjóðgarðinum Triglav. Fjallið Triglav er í Ölpunum og raunar hæsta fjall Slóveníu, eða 2864m. Eyjan með kirkjunni í Bled-vatni er á meðal helstu táknmynda Slóveníu. Við höfðum þrjá klukkutíma til að skoða staðinn. Sumir notuðu tækifærið og gengu hring í kringum vatnið. Heilnæmt fjallaloft. Vatnið er afar tært. Einstakur staður. Síðar um kvöldið í Ljubljana var sameiginlegur kvöldverður fyrir hópinn á veitingastaðnum Sarajevo: Hefðbundin matargerð Balkanlanda.

Fimmtudaginn 8. nóvember var byrjað á því að skoða mikilvægi þess að brydda upp á tilviljanakenndum þáttum, orðum eða hugmyndum (Random Input) til að örva skapandi hugsun. Eftir kaffipásu var síðan skoðað hvernig væri hægt að gera lista yfir það sem kallast gætu „gallar“ (faults) og hvernig væri hægt að fjarlægja þá. Og eftir síðara hlé var fókusinn á FIP (First Important Priorities). Öllu þessu fylgdu umræður og hópverkefni, þó þannig að fyrst var maður sjálfur að glíma við vandamálið og miðlaði síðan í hópvinnu. Nastja skipaði 4 yfirhópa sem unnu endanlega úr efninu, þótt unnið hafi verið úr efninu í öðrum hópum á fyrra stigi. Þessir fjórir hópar voru: Latino-hópurinn (Frakkland og Spánn); Baltic-hópurinn (Lettland); Balkan-hópurinn (Króatía) og Mighty-hópurinn (Ísland, Svíþjóð, Þýskaland/Bandaríki).

Nú rann föstudagurinn 9. nóvember upp. Næstsíðasti dagurinn. Áherslan var á afleiðingar (Consequenses) og framhald (Sequel). Síðar var komið að niðurstöðum og enduskoðun. Þá kynntu hóparnir áætlun um það hvernig þeir myndu standa að verki um framkvæmd skapandi hugsunar í kennslu. Að lokum kom gestakennari, Marija Ogorevc, og deildi með okkur reynslu sinni af kennslu í skapandi hugsun. Allt tekur enda, og þannig gerðist það laugardaginn 10. nóvember að frá kl. 09.00-10.30 lögðumst við í fjölþætt mat á námskeiðinu og síðan rann upp kveðjustund. Þær Brina Menart (International Course Coordinator), Nastja Mulej (þjálfari) og Monika Spital (aðstoðarkona) sem höfðu yfirumsjón með námskeiðinu eiga lof skilið fyrir framúrskarandi skipulag og alúð í öllu sem þær tóku sér fyrir hendur.

http://www.erasmuspluscourses.com