Skiptinám í Finnlandi, bílamálunarnemar.

Í október 2018 fengum við boð frá kennurunum okkar um að fara í skiptinám til Finnlands í mánuð. Við tókum vel í það og vorum send út strax í nóvember. Við lentum 14. nóvember í Helsinki og þurftum að taka rútu þaðan til Pori sem er næsti bær við litla þorpið sem við vorum í sem heitir Ulvila. Við vorum sótt og keyrð þangað sem við áttum að gista sem var á skólagörðunum. Við fórum í skólann Sataedu. Sataedu er í nokkrum pörtum og við fórum í iðnaðarskólann þeirra. Það var mjög stutt fyrir okkur að fara í skólann þaðan sem við gistum í mjög flottri og góðri íbúð með eldhúsi, 4 svefnherbergjum, 2 baðherbergjum og stofu.

Það var einn kennari í skólanum sem talaði góða ensku og við byrjuðum strax að leita til hans til að spyrjast fyrir um áætlun. Við fengum strax verkefni um að laga síls á bíl, unnum frekar sjálfstætt og ef okkur vantaði eitthvað þá var farið með okkur í búð og keypt það sem við þurftum. Allt í allt þá fengum við 3 bíla til að laga og þetta voru allt bílar með eigendur sem er nýtt fyrir okkur. Í Borgarholtsskóla vinnum við í bílum sem eru í eigu skólans.

Við fengum líka að fara í ferðir með kennurum og skoða Finnland betur. Við keyrðum til Tampere og þar fengum við heilan dag til að labba um, taka myndir og kíkja í búðir. Við fórum líka á verkstæði fyrir skógarhöggsvélar þar sem við fengum að skoða vélarnar og hvað var verið að laga. Eftir það fengum við líka að prófa hermi þar sem við fengum að sjá hvernig það er að vinna í svona vélum. Um helgar var okkur útvegaður bíll í eigu skólans og við fengum að nota hann og skoða það sem við vildum og höfðum áhuga á. Við ferðuðumst aðallega til Pori til að versla inn, fara út að borða og kíkja í allskonar búðir, aðallega sem seldu verkfæri. Það var ein lítil búð í 2 mínútna fjarlægð frá okkur og 2 skyndibitastaðir sem við vissum af í göngufæri í Ulvila.

Skólinn okkar byrjaði klukkan 8:30 og fengum kaffi og hádegismat. Það var í boði að fara í kaffiteríuna í skólanum og borða þar en þar sem við vorum svo nálægt íbúðinni okkar þá ákváðum við frekar að fara þangað að borða. Kennararnir buðu okkur tvisvar uppá mat, bæði fyrsta daginn þegar verið var að sýna okkur skólann og líka einn af seinustu dögunum þegar það var jólahlaðborð.

Við fengum að fara á íshokkíleik sem er þjóðaríþrótt Finnlands, sem var mjög gaman og mjög áhugavert þar sem að það er ekki jafn mikið um íshokkí á Íslandi.

Við vorum beðin um að halda kynningu á Íslandi fyrir krakkana sem eru að læra um ferðamál og segja frá aðalatriðunum, bæði kostum og göllum við að búa þar. Einnig að bera það saman við það sem við höfðum upplifað í Finnlandi hingað til. Finnska er mjög flókið tungumál og við lærðum ekki mikið, við notuðum aðallega „kitos‘‘ sem þýðir takk.

Þetta var mjög áhugaverð og skemmtileg upplifun og það var mjög gaman að fá tækifæri til að ferðast og stunda nám í öðru landi og læra margt nýtt í leiðinni. Við dvöldum þarna til 14. desember og lögðum af stað klukkan 7:30 um morgun til að taka lest uppá flugvöll.

Árný Eir Kristjánsdóttir og Gabriel Sveinsson.