Inga og Steinunn fóru í starfskynningu til Skandeborg í Danmörku

Við Jónína Steinunn Jónsdóttir og Inga Jóhannsdóttir stærðfræði- og dönskukennarar í Borgarholtsskóla, fengum Erasmus styrk til að heimsækja og kynna okkur  „Skanderborg Gymnasium“ í Danmörku dagana 25. – 29. mars 2019. Steinunn sótti tíma hjá stærðfræði- og þýskukennurum og Inga hjá dönsku- og tónlistarkennurum.

Skanderborg skólinn
Skanderborg skólinn
Nemendur skólans
Nemendur skólans

Skanderborg Gymnasium er staðsettur í litlum, fallegum bæ „Skanderborg,“  um 20 km frá Aarhus. Í Skanderborg búa um 18.500 manns. Þar er rík hefð fyrir músik og menningu sem birtist hvað sterkast í „ Kulturhuset“ þar sem margskonar menningarstarfsemi er samankomin s.s. bókasafn, kvikmyndahús, listasýningar, tónlistarviðburðir o.s.frv. Þar er líka matargerðarlistinni gert hátt undir höfði, en í húsinu er einn besti matsölu/kaffistaður í bænum. Menningunni er þó ekki einungis gert hátt undir höfði í bænum sjálfum heldur nær hún einnig inn til menntaskóla bæjarins: Skanderborg Gymnasium.

Umhverfið í kringum menntaskólann er afskaplega fallegt. Hann stendur uppi á hæð með útsýni yfir stórt vatn, umvafinn gróðursælu útivistarsvæði þar sem mörgum listaverkum hefur verið komið fyrir. Þegar við vorum þarna í lok mars var vorið byrjað að banka á glugga með yndislegum fuglasöng, hitnandi sólargeislum og brumi á gróðri. Náttúran að springa af gleði yfir vorinu. Umhverfið sannkallað listaverk.

Skanderborg Gymnasium var stofnaður 1971 og teiknaður af arkitektunum Knud Friis og Elmar Moltke. Skólastjórinn er Jakob Thulesen Dahl og aðstoðarskólastjóri er Jesper Schou- Jørgensen. Sú sem tók á móti okkur og leiðbeindi afskaplega vel var Anne Blum kennari við skólann. Hún vildi allt fyrir okkur gera.  Kennarar eru um 80 talsins og nemendur um 900 á aldrinum 16 – 19 ára. Skólahúsnæðið er hannað til þess að hvetja til nýrra kennsluhátta og að nemendur finni sér afdrep til að vinna í friði með sjálfum sér og ekki síst með öðrum. Fallegt umhverfi utandyra þjónar sama tilgangi og dregur stundum kennslustundir  út fyrir múrsteinshlaðna veggi skólans en hver kennslustund er 75 mínútur.

Liastaverk eftir nemendur skólans

Skólinn hefur í gegnum öll árin lagt áherslu á að kaupa myndverk til að hengja upp á veggi og í kennslustofur til að gleðja nemendur, kennara og fólk sem á leið um. T.d. vakti myndin hér til hliðar endalausa gleði og eftirtekt undirritaðra þegar við gengum hjá.  Skólinn býður upp á þriggja ára nám, þarna er bekkjarkerfi. 1.g. 2.g. 3.g.  Bekkirnir eru um 30 talsins. 

Í skólanum er öll neðsta hæðin eitt stórt nemendasvæði upp á 3600 fm. Þetta nemendasvæði hverfist um mötuneytið sem er einskonar miðja. Þarna eru borð og bekkir og líka lokuð kósí rými sem eru í mikilli notkun þegar nemendur þurfa að bera saman bækur sínar. Á daginn nýtist þetta svæði í kennslu og á kvöldin er margskonar starfsemi þarna s.s.  4 sinnum í viku hverri er þarna eins konar námskaffihús (studiecafé) þar sem nemendur koma saman og læra í ca. eina kennslustund fyrir næsta dag. Þarna hafa nemendur það líka notalegt, spjalla saman og hlusta á músík. Þarna eru haldin svokölluð “hyggekvöld“  þar sem nemendur geta hist og haft það gott með vinum sínum yfir kakó eða kaffibolla. Tvo síðustu hittinga ársins geta nemendur keypt bjór. Þessi kvöld eru þó ekki bara „einhvernvegin“, heldur alltaf haldin sem þemakvöld, pókerkvöld, kvikmyndakvöld, aðventukvöld o.s.frv.  Á þessum kvöldum er gjarnan „livemúsik“  allskonar skemmtanir og keppnir. Þarna gefst líka nemendum kostur á að koma saman á föstudagskvöldum og njóta þess að fá sér bjór með vinum sínum þvert á alla bekki. Nemendur sjá sjálfir um sölu á drykkjum og slíku.

-Gólfsíðir og bjartir gluggar einkenna þetta mikla nemendasvæði  og þar er líka hægt að ganga út í garðinn sem er einskonar skúlptúrstaður sem ber nafnið „Voksneværk“ og er hann sameiginlegt verk nemenda og kennara við skólann og listamannsins Jørgen Rønnau (unnið 1992). Útpældur arkitektúr þarna á ferð og notkun þessa skemmtilega svæðis einkennist af hugmyndaauðgi, s.s. brugðið á leik í kennslustundum eða farið í rannsóknarvinnu. Þetta er hugsað til gagns fyrir nemendur og sem einskonar uppbrot í kennslu.

Fagstofurnar eru mjög vel útbúnar og í stöðugri þróun. Myndlist á veggjum, þægilegar töflur sem hægt er að draga upp og niður og stólar sem þjóna þörfum hins breiða hóps nemenda. Þeir eru á hjólum og hægt að hækka þá upp og niður, með öðrum orðum þá eru þeir þægilegir fyrir okkur öll, hvernig sem sköpulagi fólks  er háttað.

Skólinn hefur yfir að ráða þremur ríkulega búnum tónlistarherbergjum með hverskonar tónlistargræjum, flyglum osfrv. Þessi herbergi eru í stöðugri notkun á dagtíma en líka eftir að skóla lýkur á daginn. Þar eru nemendur að syngja saman, berja trommur, þeyta lúðra, semja tónlist og þess háttar. Dönskukennarinn átti þess kost að sitja í tíma og syngja hástöfum með sópranstelpu nokkurri – kennarinn spilaði undir, allt gert af mikilli gleði og innlifun. Ekki er laust við að Íslendingurinn hafi gengið léttur í spori út úr þeirri kennslustund. Reyndar voru allir tímar gefandi og nærandi fyrir sálina, svo mikil vinsemd og þægilegheit svifu yfir vötnum.

Annað hvert ár stendur skólinn fyrir heilmikilli tónlistarhátíð. Þar er um að ræða þétta samvinnu kennara og nemenda úr öllum þremur árgöngunum. Tónlistarhátíðin nær yfir nokkrar vikur með það að markmiði að standa fyrir þremur til fjórum sýningum. Allir sem áhuga hafa geta verið með, bara finna hvar hæfileikarnir liggja, leggja sig fram og taka þátt. Vera hluti af hópnum skiptir mestu máli. Þarna er pláss fyrir að vinna með PR, leikmyndasmíði, tónlist, söng, dans, búninga og leikrit. Þessi mikla fjölbreytni á  að gefa öllum tækifæri til að finna sér sinn stað. Kennarar leyfa hverjum og einum nemenda að ráða vinnuframlagi sínu. Spurt er: Viltu vera í aðalhlutverki eða smáhlutverki? Markmiðið er að koma á fót virkilega skapandi verkefni, fylgja því eftir og ljúka því. Gera eitthvað í samfélagi við aðra.  Mætti segja að öll gildi skólans komi fram í þessu verkefni, til mikils þroska fyrir nemendur. Enda er nemendum eindregið ráðlagt að vera með.

„Forårsfesten“ er svo hátíð hátíðanna í Skanderborg Gymnasium. Til þessarar hátíðar hlakka nemendur mjög til. Þarna koma þeir í skólann á æfintýralegan hátt, klæddir í búninga þar sem einungis hugmyndaflugið setur framkvæmdum skorður. Vinir og fjölskylda fylgjast síðan stolt með. Auðvitað er borðað saman og ýmiskonar heimatilbúnar skemmtanir settar fram og dansinn stíginn, allt  eins og hæfir  stærstu hátíð ársins.

Í opinberum skjölum eru grunngildi skólans sögð vera: Fagmennska, samvinna, þróun, sjálfstæði, heilindi, traust og virðing. Andrúmsloftið skal vera gott þar sem nemendum og kennurum líður vel og finnst þeir vera öruggir. Þetta skapar vinnuanda sem einkennist af vinnugleði.  Allt falleg orð á blaði, en við komumst að því að þetta var ekki bara klisja skóla sem vill líta vel út í augum umheimsins, heldur virkilega upplifðum við að eftir þessum gildum væri farið. Í Skanderborg Gymnasium þykir mikilvægt að kennarar skólans hviki hvergi frá þessum gildum því þannig eru þeir fyrirmyndir fyrir nemendahópinn. Litið er svo á að það læra börn sem fyrir þeim er haft. Góðir nemendur skapa síðan góðan skólabrag sem dregur ennfrekar að sér hæfileikaríkt starfslið sem auðveldara er að halda í en ella. Eins og áður sagði sáum við þessi fyrrnefndu gildi endurspeglast í skólastofunni á meðal nemenda. Hvert og eitt einasta gildi

Það sem styður þessa fullyrðingu okkar er hvernig við upplifðum kennslustundir. Förum í gegnum það:

Nemendur byrjuðu allar kennslustundir (75 mínútur) á að heilsa og tóku óumbeðnir upp tölvuna sína, tilbúnir í slaginn. Lokuðu henni síðan allir sem einn ef kennarinn bað um það, en það gerði hann ef hann vildi ná sérstakri athygli nemenda. Krakkarnir virtust vera mjög áhugasamir og vingjarnlegir við hvert annað. Sömuleiðis einkenndust samskipti milli nemenda og kennara af virðingu, léttleika og vinsemd. Mikill vinnuandi ríkti í kennslustundum.  Nemendur voru áberandi upplitsdjarfir og mjög til í að ræða málin hvert við annað og ekki  virtist þeim heldur þykja leiðinlegt að láta ljós sitt skína við kennarann. Aldrei var þó kallað eða gripið fram í til að ná athygli hans, heldur hendin  upp með einungis vísifingur á lofti. Slíkur var áhuginn fyrir því að fá að að tjá sig að sjaldnast var einungis einn uppsperrtan vísifingur að sjá. Þannig biðu vísifingurnir í röðum, þolinmóðir þangað til röðin kom að þeim. Okkur fannst þetta með vísifingurinn smá skondið. Þessi áhugi til að fá að tjá sig sýnir hvað þau upplifa sig örugg og vel metin í skólastofunni. Kannski spilar þar líka inn í að í skólanum er bekkjarkerfi og nemendur því farnir að þekkjast vel.

Kennslustundir einkenndust mjög af hópavinnu og umræðum. Nemendur sátu hringinn í kringum borð  í fjögurra til átta manna hópum. Nemendur endalaust að ræða saman og bera saman bækur sínar varðandi námið.

Í Skanderborg Gymnasium koma allir nemendur með sína eigin fartölvu og vinna á hana, kennslubækur sjást varla og lítið um pappírsnotkun. Reyndar fannst kennurum skólans kannski aðeins of mikil áhersla lögð á pappírslausan skóla.  Kennsluefni, verkefni, tæki og tól svo sem eins og  vasareiknir var allt í tölvunni. Einungis einu sinni upplifðum við að nemandi gleymdi tölvunni sinni heima.  Í stærðfræðinni fannst íslenska gestinum athyglisvert að kennarar og nemendur reiknuðu í fartölvunum en samhliða því fóru nemendur og reiknuðu, gjarnan 2 og 2 saman, á veggi skólastofunnar og kennarinn gekk síðan á milli til að aðstoða og útskýra.

Í þýskustofunni  var íslenski ferðalangurinn beðinn um að lýsa námsárum sínum í Berlín og hvernig hann upplifði fall Berlínarmúrsins. Eins og við mátti búast voru nemendur áhugasamir og fannst þetta gott uppbrot í kennslunni. Danskir nemendur byrja að læra þýsku í 5. bekk í grunnskóla. Í þessum tiltekna bekk  voru þau komin upp í 2. g og voru dugleg við að tjá sig og skildu þýskuna nokkuð sæmilega. Það að tjá sig er áberandi lítið mál fyrir nemendur og virðist vera lögð mikil áhersla á það í dönsku skólakerfi.

Einstöku sinnum voru þau með eitthvað að narta í, jafnvel þó það sé almennt ekki leyfilegt í kennslustundum, en þá voru það gulrætur, epli eða eitthvað álíka hollt og gott. Því tengt fannst okkur áberandi hvað fólk var grannholda, líka kennararnir.  Síminn sást varla, enda bannaður í skólastofunni nema við sérstök tækifæri og kannski einu sinni sáum við á þessari viku að nemandi færi inn á facebook.

Agavandamál voru ekki sjáanleg. Einu sinni á þessari viku var hressilegur andi meðal nemenda en þá sussaði kennari á þau nokkrum sinnum. Íslendingnum þótti þetta afar eðlilegt, en eftir kennslustundina hálfafsakaði kennarinn sig, því henni fannst hún hafa skammast fullmikið.

Nemendur skrópa ekki mikið. Ef þau gera það er kallað á námsráðgjafann og SU námsstyrkurinn tekinn af þeim, og virka þær aðgerðir vel. Ekki líkar þeim að missa framfærsluna.

Nemandasvæðið að mötuneytinu meðtöldu var hreint og þrifalegt og aldrei sáum við matarleyfar þar eða leirtau á borðum. Enda ein af reglum skólans að menn sýni húsnæðinu og hvoru öðru þá virðingu að ganga vel um.

Skanderborg Gymnasium er sérlega góður menntaskóli sem þjálfar ekki einungis vitsmunalega færni, heldur  þroskar hann líka mjög mennsku nemenda. Skólastarfið ýtir undir að þeir verði  sjálfstæðir, upplitsdjarfir, skapandi, kurteisir og einlægar menneskjur.  Gildi sem er gott veganesti út í lífið og ætti að auka hamingju nemenda umtalsvert, sem síðan smitar út í þjóðfélagið og gerir það að betri stað fyrir okkur öll.

Í fyllstu einlægni vildum við óska þess að við hefðum haft tækifæri til að senda börnin okkar í þennan frábæra menntaskóla.

Borgarholtsskóli og Skanderborg Gymnasium: Kærar þakkir fyrir okkur.

Steinunn og Inga