Hafdís Pálína Ólafsdóttir í Madrid

Ég fékk Erasmus styrk til að heimsækja framhaldsskólann Puerta Bonita í Madrid dagana 12. – 19. janúar 2019.
Ég fylgdist með kennslu og spjallaði við nemendur og kennara. Tímann notaði ég líka til að skoða borgina og söfn Madridborgar.
Í skólanum tók á móti mér Raúl Martínes Ramón og sá hann um að skipuleggja fyrir mig dagskrá fyrir þann tíma sem ég dvaldi í skólanum.

Madrid

IES Puerta Bonita
Puerta Bonita er menntaskóli með sérhæfingu í grafískri hönnun, hljóðtækni, myndvinnslu, hreyfimyndagerð, kvikmyndun og sjónvarpsútsendingum. Meginmarkmið er að þjálfa nemendur fyrir störf á þessum sviðum.

Með mér fóru út tveir nemendur af kvikmyndabraut þau Oliver Ormar Ingvarsson og Guðrún Birna Pétursdóttir og dvöldu þau í skólanum í mánuð.
Með mér fóru út tveir nemendur af kvikmyndabraut þau Oliver Ormar Ingvarsson og Guðrún Birna Pétursdóttir og dvöldu þau í skólanum í mánuð.


Skólinn skiptist í tvö stig, grunnnám í fyrri hluta (grado medio) og sérhæfingu í síðari hluta (grado superior).
Síðan 1990 hefur skólinn útskrifað meira en 3000 sérfræðinga fyrir fjölmiðlaiðnaðinn með sérhæfingu í mynd- og hljóðvinnslu og hönnun og stjórnun grafískrar framleiðslu Það er margt sem er áhugavert að sjá í þessu skóla og margt sem þeir eru að gera sem er hliðstætt því sem við erum að gera. Í Puerta Bonita er mikil áhersla á tæknivinnu, að nemendur séu færir um að taka sín verk alla leið hvort sem það er bókaútgáfa, vefhönnun, kvikmyndun eða hljóð- og útsendingavinna.

Námið

Grado medio, fyrri hluti, þar sem nemendur eru frá 16 ára, eru ýmis grunnfög kennd. Ég fylgdist með nemendum í pappírsgerð þar sem þau lærðu allt um pappír sem prentarar þurfa að kunna ásamt því að búa til handgerðan pappír. Ég fylgdist líka með nemendum silkiprenta, læra undirstöðu í prentvinnslu og vefhönnun. Stórir prentsalir með stórum og flottum prenturum einkenna þessa deild.
Grado superior, í síðara hluta námsins eru í boði tvær brautir: Mynd og hljóð (Imagen y sonido) og grafísk hönnun (Artes gráficas).

Grafísk hönnun
Ég dvaldi mest með nemendum sem voru í grafískri vinnslu. Áhugavert var að sjá flottar bækur og bæklinga þar sem áherslan var á góða hönnun og faglega þekkingu í uppsetningu og prentvinnslu. Einnig var fræðandi að fylgjast með nemendum sem voru að hanna vefi og þar voru þau að nota mörg sömu forrit og við erum að nota hér í Borgó.

Margt skemmtilegt var að sjá í áfanga þar sem nemendur unnu að umbúða, umhverfis- og vöruhönnun.
Hér sjást líkön og myndir á glugga.

Á síðustu önn höfðu nemendur unnið að skreytingum fyrir skólann. Fyrst voru gerð líkön og síðan voru verkin prentuð og þeim komið fyrir á veggjum, hurðum og gluggum. Þar mátti sjá myndefni úr sögu borgarinnar og úr ævintýrabókum.

Það sem einkenndi starfsandann var að nemendur unnu að einbeitingu að sínum verkum. Í mörgum áföngum var áhersla á hópvinnu þar sem hóparnir funduðu reglulega og skipulögðu sig. Í síðari hluta námsins voru verkefni almennt mjög stór, í áfanga var jafnvel aðeins eitt verkefni sem fól í sér hugmyndavinnu, skissugerð, hönnun og útgáfu. Það sem vakti athygli mína var að skólinn er tvísetinn, nemendur eru í skólanum frá 8:30 – 14:30 eða frá 15:30 – 21:30 og hádegismatur er ekki fyrr en kl. 14:30.

Þrátt fyrir að mér hafi sýnst nemendur almennt vera áhugsama og halda sér vel að verki kom fram í viðtölum við kennara að brottfall er vandamál, sérstaklega í fyrri hluta námsins.

Almennt er skólinn vel tækjum búinn, frábær kvikmynda- og ljósmyndastúdíó og útsendingastúdíó bæði fyrir mynd og hljóð. Prentsalir og flottir prentarar.

Það sem ég held að nýtist mér eftir heimsóknina er þessi markvissa vinna sem ég sá í kennslustundum. Hópvinna var mjög skipulögð og markviss og lokaárangur sýnilegur og áhugaverður. Nemendur vistust kunna mjög vel á þau forrit sem þau voru að nota og sýndu mér marga áhugaverða möguleika sem ég mun nýta mér í minni kennslu. Það var öfundsvert að sjá þessi flottu ljósmyndastúdíó og þessa mörgu fjölhæfu prentara. Mikilvægt að vinna að því hér í Borgó að koma upp hliðstæðri aðstöðu fyrir ljósmyndun og efla prentmöguleika.

Borgin og söfnin
Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom til Madrid. Borgin er falleg, fólkið er almennt vingjarnlegt og söfnin eru frábær og þar er að finna verk eftir helstu listamenn sögunnar. Frægasta safnið er Prado safnið með úrvali af verkum eftir Goya og Velázquez. Önnur frábær söfn sem ég skoðaði voru Thyssen-Bornemisza og Reina Sofia.

Þessi vika var fljót að líða. Það var einstaklega vel tekið á móti mér í skólanum og það var frábært að fá tækifæri á að skoða starfið í skólanum, spjalla við kennara og nemendur og skoða þau stórkostlegu söfn sem borgin býður upp á.
Kærar þakkir fyrir mig.

https://birta.bhs.is/~hafdis/madrid/madrid2019.pdf