Nordplus málstofa um nýsköpun

Dagana 15.-18. febrúar héldu nemendur á viðskipta- og frumkvöðlabraut Borgarholtsskóla málstofu á Zoom. Þar voru samankomnir íslenskir nemendur og kennarar auk nemanda og kennara frá Lettlandi og Finnlandi.

Tilgangur málstofunnar var að auka og miðla þekkingu og færni í nýsköpun á sviði upplifunar, mikilvægi hugverkaréttar og hvernig hægt er að auka líkur á arðsemi í stofnun sprotafyrirtækja. Málstofan er hluti af Nordplus verkefni sem hefur það markmið að hvetja nemendur á framhaldsskólastigi til nýsköpunar og auka færni þeirra á því sviði.

Í málstofunni fengu nemendur meðal annars kynningar á íslensku sprotafyrirtækjunum Lauf Cycling, Pink Iceland, Tulipop og Eldstæðið. Óttar Ólafsson, kennari í nýsköpun, stýrði málstofunni en auk hans tóku þátt þrír nemendur skólans; Daði Snær Hálfdánsson, Jón Þorberg Sveinbjörnsson og Vigdís Hervör Guðjónsdóttir. Alls tóku 29 manns þátt í málstofunni að þessu sinni en verkefnið hófst 1. ágúst 2019 og lýkur 30. maí 2021.