Endurmenntunarnámskeið í Nafplio Grikklandi
Guðrún Guðjónsdóttir og Inga Ósk Ásgeirsdóttir. Á námskeiðið „Facing Diversity – Classroom management“ í Nafplio á Grikklandi, dagana 27. ágúst til 1. september 2018.
Við stöllurnar og íslenskukennararnir, Guðrún Guðjónsdóttir og Inga Ósk Ásgeirsdóttir, fórum á endurmenntunarnámskeið til Nafplio á Grikklandi dagana á vegum Erasmus menntaáætlunar Evrópusambandsins. Námskeiðið bar yfirskriftina „Facing Diversity – Classroom management“ eða bekkjarstjórnun fjölbreytts nemendahóps. Námskeiðið stóð í 6 daga, kennt var í 5 daga og 6. daginn sigldum við til eyjanna Hydru og Spetses, sem báðar eru fallegar og vinsælir ferðamannastaðir. Nafplio er lítill bær á Pelopsskaga. Í gegnum tíðina hefur bærinn verið á valdi Feneyinganna ítölsku og Ottómannanna tyrknesku sitt á hvað allt þar til gríska lýðveldi nútímans var stofnað 1823. Nafplio var fyrsta höfuðborg landsins þar til Aþena hafði betur tíu árum síðar. Þessi saga setur svip sinn á staðinn, byggingarstíllinn er ekki svo grískur heldur eru ítalskar svalir og þakskífur ráðandi með hringlaga torgum innan um þröngar og krókóttar steingötur. Yfir bænum trónar rammgert virki sem Feneyingar byrjuðu á og Tyrkir kláruðu. Það var svo notað sem fangelsi fyrir lífsstíðarfanga allt fram á þriðja áratug 20. aldar. Hópurinn samanstóð af tólf þátttakendum frá sex löndum og tveir grískir kennarar reyndu að hafa einhverja stjórn á þeim. Allir sem reynt hafa að kenna kennurum vita hversu stór áskorun það er og Dimitris og Foteini gerðu sitt besta. Þarna voru þrjár dömur frá Búlgaríu, tvær finnskar kennslukonur, spænskur strákur sem kennir frönsku í kvöldskóla, tvær hrikalega hressar frá Portúgal, kýpverskur námsráðgjafi sem var með fjölskylduna með sér, við tvær frá Íslandi og svo ungverskur munkur af reglu heilags Benedikts og kennir í kaþólskum heimavistarskóla fyrir drengi. Sem sagt, afar margvíslegur hópur en þrátt fyrir fjölbreytnina áttum við eitt sameiginlegt – við lendum stundum í erfiðleikum við að hafa stjórn á nemendum og fá þá til að læra. Dimitri sem er háskólakennari fjallaði aðallega um „inclusion“, hvernig hægt er að koma á móts við alla nemendur í kennslustofunni og var hugmyndafræði hans mjög í anda skóla án aðgreiningar. Við vorum sammála um að hann skilgreindi vel helstu hugtök og benti á mikilvægi lausnarmiðaðra viðhorfa. Foteini sem er sérkennari kenndi bekkjarstjórnunina og lagði áherslu á þarfir nemenda, bæði hvað varðar skipulag kennslustofunnar og fjölbreyttar aðferðir. Mikilvægt væri að hlusta á nemendur og kanna hvort eitthvað lægi að baki slæmri hegðun. Tímarnir voru mjög góðir hjá þeim báðum, þau töluðu, sýndu okkur myndbönd og létu okkur ræða saman og vinna verkefni. Við deildum því reynslu sem var mjög lærdómsríkt. Okkur fannst áberandi hversu mikill stuðningur var í boði fyrir nemendur með sérþarfir í flestum hinna landanna. Nafplio er dásamlega fallegur bær. Við vorum á mjög góðu og velstaðsettu hóteli í gamla bænum, Hotel Aganemmon. Allt er fullt af fallegum kaffihúsum, matsölustöðum og litlum sætum búðum í bænum og verðlag er mjög hagstætt. Hægt er að ganga á strönd úr miðbænum, litla steinaströnd í 3 km fjarlægð var stærri sandströnd. Margt er hægt að skoða, bæði í bænum og nágrenninu, virki, söfn og sögufræga staði svo sem Mykeneu en þangað skelltum við okkur með leigubíl. Kennt var í listasafni í miðjum bænum, kennsluaðstaðan var frekar slæm, við vorum í lítilli stofu út í horni en þröngt mega sáttir sitja og vandist staðurinn ágætlega. Kennararnir fóru ekki með okkur í dagsferðina en fóru einu sinni með okkur út að borða í lokin á mjög skemmtilegan stað. Í skipulaginu hefði kannski mátt gera ráð fyrir hádegismat og fleiri kaffipásum, Dimitri og Foteini voru svo áköf að kenna okkur sem mest. Þátttakendur dreifðust á hótel út um allan bæ og finnsku konurnar voru á afskekktu hóteli. Skemmtilegra hefði verið ef við hefðum búið nær hvert öðru. Góð tengsl mynduðust engu að síður og okkur kæmi ekki á óvart að hitta einhverja þátttakendur á ný. Við vorum alsælar með dvöl okkar í Nafplíó og mælum svo sannarlega með endurmenntunarnámskeiði í svona yndislegu umhverfi.