Dagný Lena og Katrín Jóna fóru til Þýskalands
Dagný Lena og Katrín Jóna fóru til Þýskalands í bæ sem heitir Rotenburg og er rétt hjá Hamborg. Þar dvöldu þær dagana 30. september – 4. nóvember.
Bæði Dagný og Katrín eru útskrifaðar úr bílamálun og fóru því út til þess að vinna á verkstæði.
Stelpurnar leigðu sér airbnb íbúð í þorpi sem heitir Westerwalsede. Það tók u.þ.b. 25 mínútur að keyra á vinnustaðina.
Dagný var á verkstæði sem heitir Autohaus Hohenesch. Þeir vinna með fólksbíla, húsbíla og matarvagna svo fátt sé nefnt. Á verkstæðinu vinna þrír málarar, en bara einn þeirra talaði smá ensku. Dagný fékk bara að pakka inn og matta. Erfiðleikar í samskiptum var þess valdandi að Dagný var ekki lengi á verkstæðinu heldur fór í skólann í Rotenburg. Skólinn heitir Berufsbildende Schulen Rotenburg en er kallaður BBS Rotenburg. Þar sat hún tíma í ensku, bifvélavirkjun og á listnámsbraut.
Katrín var á verkstæði sem heitir Seico og er það með umboð fyrir matarvagna. Þar vinna fjórir málarar, en bara einn sem talaði smá ensku. Fyrstu tvær vikurnar var Katrín mest í að þrífa og pakka inn, þriðju vikuna fékk hún að slípa og síðustu átta dagana fékk hún að mála litla hluti. Katrín upplifði að ekki hefði verið gert ráð fyrir að hún fengi að mála og fannst ekki nægilega vel séð um að hún hefði verkefni.
Helgarnar voru vel nýttar í að skoða þýska bæi og borgir, versla og hafa gaman. Þær fóru til dæmis til Hamborgar, Bremen og Hannover og varð síðasttalda borgin uppáhalds staður bæði Katrínar og Dagnýjar. Þar er skemmtileg göngugata í miðbænum með öllum helstu búðunum. Á kvöldin var svo kíkt á næturlífið.
Væntingar stúlknanna voru miklar fyrir ferðina og því miður urðu þær fyrir ákveðnum vonbrigðum með vinnustaðina. Þær höfðu vonast eftir betri skipulagningu og að fá að gera meira enda útskrifaðir bílamálarar. Eftir stendur samt að þær nýttu frítimann vel, þær ferðust um og könnuðu nýjar slóðir og juku þannig víðsýni sína.