Madrid – kvikmyndagerða-nemar
Dvölin okkar í Madríd með Erasmus+ var ótrúlega skemmtileg og lærdómsrík. Við dvöldum í heldur þægilegri íbúð sem var nálægt nánast öllu, þ.e. skólanum, lest/rútu, matvörubúðum og veitingastöðum. Skólinn var verulega flottur, stór með allskonar áhugaverðum fögum sem hægt var að læra, tækjabúnaðurinn þeirra var verulega stór og flottur og óskuðum við þess að hafa þessa aðstöðu heima.
Við vorum oftast í tíma þar sem var verið að kenna animation. Þar lærðum við margt nýtt og kynntumst fullt af krökkum. Við lærðum mikið um tæknina á bak við animation bæði fyrir 2D og 3D og notuðum við forrit eins og Maya 3D, Blender 3D, Toon Boom Animate Pro og Photoshop. Að læra að gera grundvallar hreyfingar í 3D animation var skemmtilegt og áhugavert, en okkur langaði þó að skoða meira hluti sem tengdust því sem við erum að gera heima í kvikmyndagerðinni.
Nokkra daga í seinustu tveim vikunum fengum við að eyða deginum í æðislega flottu sjónvarps-stúdíói sem skólinn rekur og lærðum hvernig þau vinna sína eigin sjónvarpsþætti og útsendingar. Okkur þótti það ótrúlega gaman því að við fengum að prufa að nota þessa flottu aðstöðu sem þau hafa og einnig að fá það tækifæri að kynnast fleiri krökkum.
Fyrir utan skóla náðum við að skoða Madríd út og inn, allt frá því að fara á Real Madríd fótboltaleik í Bernabeu yfir í það að skoða klassísk málverk á Prado safninu. Við fórum einnig í dagsferð smá út fyrir Madríd til Segoviu. Við eyddum deginum í það að skoða gömul rómversk mannvirki eins og Aqueduct de Segovia og Alcázar de Segovia kastalann sem var nánast eins og úr Disney mynd. Auðvelt er að komast á milli staða í Madríd, bæði með strætisvögnum og metró en við notuðum þó metróinn alltaf og komumst hvert sem er í borginni með honum.
Okkur fannst þetta ótrúlega gaman og lærdómsríkt og myndum við ekki vilja breyta neinu við þessa ferð. Skólinn, Puerta Bonita, tók einnig verulega vel á móti okkur og leyfði okkur að sjá og gera svo margt skemmtilegt.
Við mælum eindregið með þessu tækifæri sem Erasmus hefur upp á að bjóða.