Starfskynning listnámskennara í Porto, Portúgal

Við undirrituð, kennarar á listnámsbraut Borgarholtsskóla, héldum í starfskynningu til Portó í Portúgal dagana 9. -14. júní 2019. Starfskynningin var í framhaldsskóla sem nefnist IPTA (Institudo Professional de Tecnologia Avancadas) en það er sjálfstæður einkaskóli stofnaður árið 2001. Skólinn, sem sérhæfir sig í starfsþjálfun í upplýsinga- og miðlunartækni, er miðlungsstór verknámsskóli þar sem lögð er áhersla á persónubundna starfsþjálfun á grundvelli námskrár sem miðar að því að gera nemendur samkeppnishæfa á vinnumarkaði. Skólinn er staðsettur í þjónustu- og verslunarhverfi miðborgarinnar og hefur skapað sér sess meðal stofnana og fyrirtækja á ýmsum sviðum iðnaðar og tækni. Í skólanum starfa 29 kennarar og 7 aðrir fagmenn í ýmsum greinum sem aðstoða nemendur.

Við sóttum meðal annars kennslustundir í vélbúnaðarforritun, hljóðupptökum og verkstæði í margmiðlunarhönnun á lokaári þar sem nemendur unnu að sjálfstæðum lokaverkefnum í leikjagerð, grafískri hönnun og kvikun. Nemendur virtust mjög áhugasamir og metnaðarfullir en talsverð samkeppni er um inngöngu í skólann.

Auk þess að sækja kennslustundir í skólanum heimsóttum við vinnustaði þar sem nemendur voru í starfsnámi. Þar má nefna tölvuviðgerðarfyrirtæki þar sem áhugavert var að fylgjast með skipulagi og vinnuumhverfi fyrirtækisins. Einnig var okkur boðið í heimsókn í Covet frumkvöðlamiðstöðina þar eru 15 minni fyrirtæki sem vinna saman að ýmiss konar hönnun og þróun. Þarna voru ljósmyndastúdíó, auglýsinga- og markaðsstofur og útgáfufyriræki sem sjá um tískublöð og vefsíður, s.s. Trendbook.com, Pentagon, Prego Group og Luxxon. Einnig smíðaverksstæði, skartgripaverkstæði, verkstæði sem bjó til höldur á skápa og húsgangafyrirtæki. Margir þeirra nemenda sem koma til að byrja með í starfsþjálfun hafa síðar fengið vinnu í þessum fyrirtækjum eftir útskrift. Áberandi var hversu ungt starfsfólk fyrirtækjanna var, flestir 25-30 ára. Við vorum þau einu sem vorum 50 plús.

Heimsóknir okkar voru afar vel undirbúnar, meðal annars héldu starfsnámsnemendur og kennarar þeirra sérstaka kynningu fyrir okkur um alhliða auglýsingaherferð sem sem þau voru þátttakendur í og fól í sér blaðaauglýsingar, hreyfimydagerð, kvikmyndagerð og vefsíðuhönnun.

Umsjónarkona erlends samstarfs í IPTA framhaldsskólanum í Porto, Maria Martins, sá um allar okkar þarfir  og skipulagði skólaheimsóknir okkar, vinnustaðaferðir, heimsóknir á söfn og merka staði í borginni auk þess að sækja okkur og keyra út á flugvöll. Umhyggjusemi hennar gátum við endurgoldið þegar hún kom í heimsókn til Íslands í stasrfskynningu á vegum Erasmus+, sótti kennslustundir í Borgarholtsskóla, skoðaði söfn og staði í Reykjavík og nágrenni.

Kristveig Halldórsdóttir og Ari Halldórsson.