Erasmus+ og þjónustubrautir BHS
Erasmus+ og þjónustubrautir
Heimurinn er alltaf að minnka og samhliða því verða alþjóðasamskipti og samstarf stærri og stærri huti af náms- og starfsumhverfi okkar. Fyrir 15 árum þótti líklega mörgum það fjarlægur draumur að taka hluta af starfsnámi sínu á framhaldsskólastigi erlendis. Í gegnum styrki frá stofnunum eins Rannís og Erasmus+ verkefnum til viðbótar við aukna meðvitund frá samfélaginu um mikilvægi alþjóðasamstarfs er þetta orðinn möguleiki fyrir nemendur í Félagsmála- og tómstundanámi, Leikskólaliðanámi og Félagsliðanámi í Borgarholtsskóla.
Mikilvægi vinnustaðanáms og starfsmenntunar verður seint dregið í efa, því þar gefst nemendum tækifæri á að átta sig á áhuga sínum, styrkleikum og veikleikum þegar kemur að þeirri starfsgrein sem þau stefna á. Í gegnum vinnustaðanám fá nemendur aukna innsýn inn í störfin og því sem krafist er af þeim þegar þau halda út á vinnumarkaðinn. Vinnustaðanám erlendis gefur unga fólkinu okkar tækifæri á að gera nám sitt enn fjölbreyttara og öflugra með því að kynnast því hvernig fólk annar staðar að úr heiminum tekst á við sambærileg störf. Ávinningur er ekki eingöngu faglegur heldur getur það einnig aukið persónulegan þroska einstaklingsins til að mynda sjálfstæði, víðsýni, menningarlæsi, sjálfsþekkingu og aðlögunarhæfni.
Á þessari önn fara þrír nemendur erlendis í vinnustaðanám í fjórar vikur. Tveir nemendur fara í Reggio Emila skóla í Portúgal og einn nemandi fer á frístundaheimili í Horsens í Danmörku. Öll eiga þau sameiginlegt að vera í félagsmála- og tómstundanámi og hafa lokið vinnustaðanámi með góðum árangri á Íslandi. Bæði nemendur og kennarar hafa unnið hörðum höndum að því að þetta verði að veruleika og eiga nemendur hrós skilið fyrir sinn hluta af undirbúningsvinnunni.
Á vorönn 2017 hafa 3 kennarar farið og kynnt sér starfsemi nokkurra skólastofnana í Portúgal og fengið innsýn inn í eftir hvaða stefnum þeir starfa. Einnig var tekinn einn dagur í að fara á tungumálanámskeið, sem þótti heppnast með afbrigðum vel.
Verkefnið heldur áfram næstu annir þar sem 12 metnaðarfullum og námsfúsum nemendum stendur til boða að sækja um að fara erlendis í vinnustaðanám í fjórar vikur. Þau lönd sem nú þegar eru tilbúin í samstarf eru: Portúgal, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Þessi listi er þó ekki tæmandi þar sem öll lönd innan Evrópusambandsins koma til greina. Einnig hafa starfsmenn tækifæri til að fara í 6 ferðir í viðbót og kynna sér hvernig kollegar í öðrum löndum starfa og læra af þeim. ERASMUS+ styrkir eru frábært tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn bæði hjá nemendum og kennurum.