Sálfræðinemendur heimsækja London
Á síðustu 12 árum hafa sálfræðinemendur í Borgarholtsskóla ásamt tveimur kennurum heimsótt London. Þessar ferðir hafa verið mjög lærdómsríkar fyrir nemendur þar sem þeir læra á borgina, menningu hennar, lestarkerfið, kynnast háskólum og söfnum.
Í marsmánuði 2017 fóru 23 nemendur ásamt tveimur kennurum til London í fjóra daga. Gist var á The Royal National Hotel við Russel Square sem er staðsett í miðri London. Hótelið er mjög líflegt og þekkt fyrir að vera hótel fyrir skólahópa víðsvegar að í heiminum. Lestarstöðin við Russel Square fer beinustu leið á Heathrow flugvellinn sem er mjög góður kostur.
Það er mjög föst dagskrá í gangi á hverjum degi og þarf hópurinn að vera tilbúinn til brottfarar níu á morgnanna. Einnig fer hópurinn út að borða saman á hverju kvöldi.
Á fyrsta deginum er mikil dagskrá og hefst á heimsókn í University College London (UCL). UCL er mjög góður háskóli og bíður upp á fjölbreytt grunn-og framhaldsnám. Það er ávallt eitthvað í gangi í skólanum og að þessu sinni voru nemendur að kynna verkefni sín sem tengdust stjörnufræðiáfanga í skólanum.
Næsta stopp er á Freud safninu sem er staðsett í fínu hverfi í Hampstead. Húsið var heimili Sigmund Freud og fjölskyldu hans eftir að þau flúðu Austurríki og ofsóknir nasista. Þetta var heimili fjölskyldunnar þangað til að yngsta dóttir Freud, Anna, dó árið 1982. Miðpunktur safnsins er án efa vinnuherbergi Freud en því hefur verið haldið óbreyttu síðan að hann vann þar. Þar má líka sjá hinn fræga legusófa sem Freud notaði í meðferð sinni: sálgreiningu. Sigmund Freud var leiðandi í sálfræðinni, setti fram kenningar um sálarlífið og fann upp á meðferðarleið sem er enn notuð í dag við geðröskunum. Annar sálfræðikennarinn hélt fyrirlestur um Freud á safninu fyrir nemendahópinn.
Dagurinn endaði síðan í dýragarðinum í London en hann er elsti vísindadýragarður í heiminum.
Daginn eftir fór helmingurinn af hópnum á knattspyrnuleik í White City en þar spilar liðið QPR sína heimaleiki á Loftus Road. Allur hópurinn fór þó saman fyrir leikinn á markaðinn í Notting Hill. Á meðan að á leiknum stóð fóru nemendur á British Museum safnið og fengu síðan að fara í verslunaleiðangur.
Þriðji dagurinn er eins konar túristadagur en þá var farið í 3-4 klst. skoðunarferð um London þar sem meðal annars eftirtaldir staðir voru skoðaðir; Buckingham Palace, Big Ben, Houses of Parliment, Tower Bridge, London Eye og einnig var siglt niður Thames ána.
Á brottfarardegi var frjáls dagur og þá gátu nemendur gert það sem þeir vildu, verslað, skoðað söfn eða bara notið þess að skoða mannmergðina í London.