Dönskunemar í Danmörku
Þann 6. apríl sl. héldu 16 nemendur í dönsku í skólaheimsókn til Danmerkur ásamt kennurum sínum, Hafdísi Ágústsdóttur og Ingu Jóhannsdóttur. Heimsóttur var lýðháskólinn Nord-Jyllands Idrætshøjskole.
Forsaga málsins er sú, að á haustönn komu fulltrúar skólans í heimsókn til dönskudeildarinnar í Borgarholtsskóla og kynntu skólann sinn. Varð þetta til þess að samband komst á milli dönskudeildar BHS og lýðháskólans og eftir fyrirspurn okkar bauð skólinn nemendum að koma og dvelja í skólanum í tvo daga þeim að kostnaðarlausu og taka þátt í skólalífinu.
Nemendur BHS héldu til Kaupmannahafnar og flugu þaðan til Álaborgar. Eftir að nemendur höfðu skoðað skólann og aðstöðuna var góður og fjölbreyttur kvöldmatur snæddur en í skólanum er lögð áhersla á hollt og gott fæði. Um kvöldið var varðeldur og spjall ásamt hópefli.
Á föstudeginum tóku íslensku gestirnir þátt í skólastarfinu og gátu valið á milli ýmissa spennandi greina; stór klifurturn með þrautum naut mikilla vinsælda. Farið var í söngtíma eftir hádegi þar sem danskir söngvar voru kyrjaðir og var það hátíðleg stund þegar íslenski þjóðsöngurinn var sunginn og nemendurnir stóðu upp og tóku vel undir. Eftir söngstund var áframhald á íþróttum. Eftir kvöldmat var kveðjustund þar sem Íslendingarnir þökkuðu fyrir frábæra dvöl og viðurgjörning.
Á laugardagsmorgninum var farið til Kaupmannahafnar með lest. Í borginni var Nýhöfnin skoðuð og Strikið vandlega kannað, einnig gafst kostur á að fara í Sívalaturn. Hápunkturinn var svo Tívolíferðin um kvöldið. Þessi elsti skemmtigarður í heimi skartaði sínu fegursta og nutu nemendur þess að skemmta sér þar saman. Í lokin var stórkostleg ljósasýning og eftir það fylgdust allir að á Dan-hostel, þar sem gist var.
Morguninn eftir var flogið heim og frábær ferð var á enda. Það er áhugavekjandi og hvetjandi fyrir nemendur sem eru að læra erlent mál að geta heimsótt landið og fengið innsýn í menningu og lífshætti þeirrar þjóðar sem talar málið. Þó að tengsl þjóðanna eigi sér langa sögu og séu náin og mikilvæg, t.d í norrænu samstarfi, er það svo að nemendur heyra ekki dönsku mikið talaða í sínu umhverfi.
Ferðin var stutt, en tókst eins og best verður á kosið og vonandi verður hægt að endurtaka leikinn. Skólinn tók vel á móti gestunum og voru nemendur BHS mjög ánægðir með ferðina og voru sér og sínum til sóma. Þeir komu heim ríkari af reynslu og dýrmætri vináttu.