Magnús Einarsson í starfskynningu í Hollandi
Vikuna 9.-13. október var Magnús Einarsson félagsfræðikennari í starfskynningu í framhaldsskólanum Amadeus Lyceum. Skólinn er staðsettur í Vleuten sem er úthverfi í Utrecht í Hollandi. Vleuten, sem liggur eina 6 km vestur af Utrecht sameinaðist Utrecht árið 2001. Utrecht liggur í um 20 mínútna lestarferð frá Amsterdam.
Ég dvaldi á gistiheimili nálægt skólanum þessa viku. Eigendur gistiheimilisins útveguðu mér reiðhjól og tók það mig um 10 mínútur að hjóla í skólann á hverjum morgni. Annar möguleiki var að taka lest og strætó, en þá hefði ég verið nær 30 mínútum að koma mér í skólann. Og þar sem viðraði vel þessa viku þá var reiðhjólið betri kostur.
Starfskynningin byrjaði á því að ég hitti leiðsagnarkennara minn, Erwin Verweij snemma á mánudagsmorgni. Erwin Verweij er 37 ára félagsfræðikennari með MA-próf í félagsvísindum frá háskólanum í Utrecht. Við fórum yfir skipulagið áður en tímarnir byrjuðu og hann kynnti mig fyrir nokkrum samkennurum sínum á kennarastofunni. Síðan fylgdi ég honum eftir í kennslustundir dagsins og næstu daga, enda var markmið mitt að skoða tengsl kennara og nemenda og hvað gerist í kennslustofunni. Í skólanum eru nemendur á aldursbilinu 12-18 ára. Nemendafjöldi er 1600. Skólinn er fremur nýr og er hverfisskóli í Vleuten.
Skólinn byrjar kl. 8.30 á morgnanna og síðasti tíminn er til kl. 16.15. Hver kennslustund er 45 mínútur. Ekkert hlé er á milli kennslustunda, þótt nemendur þurfi að skipta um stofur, utan frímínútna (pauze) sem eru 3×20 mínútur yfir daginn; kl. 10.45, 12.35 og 14.25 fyrir eldri nemendur. Skólinn keyrir tvær töflur fyrir nemendur; önnur er fyrir yngri nemendur,12-14 ára, og hin er fyrir eldri nemendur, 15-18 ára. Með þessum hætti eru þessir aldurshópar aldrei samtímis í frímínútum. Nemendur í grunnskóla, 4-12 ára, taka samræmd próf (CITO) í lokin og ræður útkoman þar inn á hvaða brautir eða leiðir nemendur fara í framhaldsskóla. Brautirnar eða leiðirnar eru VMBO (undir 535 stig á samræmdu prófi), HAVO (milli 535-345 stigum) og VWO (yfir 545 stigum). Þessi VWO leið er t.d. ætluð þeim sem hyggjast undirbúa sig fyrir háskólanám. VWO leiðin er því mörkuð frá 1-6 frá 12 til 18 ára og lýkur með samræmdu prófi í maí á síðasta ári. Samræmda prófið gildir 50% til móts við 50% prófseinkunna í skólanum sjálfum síðustu tvö árin. Lágmarkseinkunn 5,5 (6) úr þessum prófum veitir nemendum aðgang að háskólastiginu.
Það sem kom mest á óvart í þessari starfskynningu minni var að upplifa jákvæðan skólabrag. Nemendur voru agaðir í kennslustundum. Þeir báru mikla virðingu fyrir kennurum og samskipti kennara og nemenda voru undantekningalaust á jákvæðum nótum. Kennslan í hverju fagi skiptist annars vegar í eina kennslustund á viku með innleggi (serre) eða fyrirlestri (45 min.) og hins vegar í tvær kennslustundir (2×45 min.) þar sem þrír ólíkir hópar (t.d. enska, félagsfræði og saga), og þar af leiðandi þrír kennarar, eru saman í stærra kennslurými (vinna í domain). Athyglisvert var að fylgjast með athygli, áhuga og vinnu nemenda í þessum tveimur ólíku kennsluformum. Það var athyglisvert að sjá hve vel nemendur nýttu vinnuna í sameiginlega rýminu (domain). Þótt nemendur væru að koma beint úr öðrum tíma og í vinnustofu í sameiginlegu rými (domain) tók það kennarana þrjá ekki nema fáeinar mínútur að virkja nemendur til vinnu. Snjallsímar eru bannaðir í kennslustundum, en flestir nemendur eru með tölvur með sér og vinna flest verkefni á innri vef skólans. Þau notuðu einnig tölvurnar til þess að glósa úr fyrirlestrum eða innleggi frá kennara. Margir nemendur glósuðu einnig með blýanti og blaði. Ekki var mikið um að nemendur þyrftu að fara á salerni í miðri kennslustund. Semsagt: engir snjallsímar, ekkert klósettráp, engin matvæli í kennslustofum og virðing fyrir orðum kennara og kennslustundinni.
Amadeus Lyceum starfar eftir lykilgildum: 1. Samræða, samvinna og gagnkvæm virðing. 2. Einstaklingsbundið val og sjálfsnám. 3. Persónuþroski, og 4. Sköpunarkraftur og útsjónarsemi sem felst í því að geta tekist á við áskoranir.
Í félagsfræðitímunum sem ég sat þessa viku var t.d. verið að fjalla um fjölmenningarlegt samfélag, lýðræði, stjórnmál, fjölmiðla, afbrotafræði atvinnuskiptingu og velferðarkerfið. Síðustu tvö árin hjá VWO (5-6) nemendum er mikil áhersla á að samþætta umfjöllun um afbrotafræði, fjölmiðlafræði og stjórnmál sem lið í þjálfun félagsvísindalegrar hugsunar. Margt af því sem ég sá á dagskrá í félagsfræði hefur tengsl við það efni sem er til umfjöllunar í FÉL1A05 og FÉL2A05 í Borgarholtsskóla.
Þriðjudaginn 10. október heilsaði ég upp á Carel Konings, skólameistara, og Susan Booij, tengilið í erlendu samstarfi milli skóla. Ég fékk skólanum myndabók um Ísland að gjöf og færði einnig leiðsagnakennar mínum, Erwin Verweij, myndasafn um Ísland.
Heimsókn mín vakti athygli um allan skólann og út fyrir hann til foreldra. Þetta heyrði ég nefnt. Mér gafst kostur á að kenna um stund í nokkrum tímum og fór kennslan oftast út í fræðslu um Ísland og Borgarholtsskóla. Nemendur tóku þessari fræðslu afar vel og margir hyggjast heimsækja Ísland í náinni framtíð. Einn daginn ferðaðist ég til Den Haag til að skoða þingið, Binnenhof, þar sem sæti eiga 150 þingmenn úr 13 flokkum í Hollandi. Þetta var liður í starfskynningu minni sem félagsfræðikennari og voru allir sammála um nauðsyn þess að ég færi að skoða þingið í Den Haag.
Ferðin öll og starfskynningin þessa viku var afar gagnleg og til fyrirmyndar. Þakka öllum sem gerðu hana að mögulega. Myndi endurtaka þetta fúslega við fyrsta tækifæri.