I.E.S. Puerta Bonita.
Undirrituð, Kristveig Halldórsdóttir, verkefnastjóri erlends samstarfs í Borgarholtsskóla, hélt til Madrídar með Hrafnkeli Tuma Georgssyni, nemanda í kvikmyndagerð þann 4. nóvember síðastliðinn. Hrafnkell Tumi var á leið í framhaldsskóla sem nefnist I.E.S. Puerta Bonita, suður af Madrid.
Í skólanum eru 900 nemendur þar sem meðal annars er kennd kvikmyndagerð, hljóðtækni, hljóðupptökur, klipping, leikstjórn og þáttagerð en einnig grafísk hönnun og prentun. Í skólanum er mjög góð aðstaða til að kenna þessar greinar, nokkur hljóðstúdíó af ýmsum stærðum, upptökusalir, fullkomið prentverkstæði, ljósmyndastudíó og fleira.
Á árunum í kringum 1960 var þessi skóli unglingafangelsi en byggt hefur verið við skólann nýtt anddyri. Kennslustofur eru í gamla fangelsinu og í afhelgaðri kirkju við hlið skólanns er leikhús fyrir skólann þar sem er góð aðstað fyrir leiklistina; búningaaðstaða, góður ljósabúnaður og upptökustudíó.
Hrafnkell Tumi mun dvelja í skólanum til 9. desember og læra meðal annars kvikmyndagerð og þrívíddarhönnun. Auk þess vinnur hann með nemendum sem eru nýsútskrifaðir og reka sitt eigið fyrirtæki í skólanum. Sjö stúlkur reka það fyrirtæki um þessar mundir.
Móttökurnar sem við fengum voru til fyrirmyndar. Heimsóknin var í alla staði áhugverð og lærdómsrík. Mig dreymir um jafn góða aðstöðu fyrir okkar listnámsbraut, þar sem listnámskennsla í kvikmyndagerð, grafískri hönnun og leiklist fær að njóta sín og er tekin alvarlega.