Ásgeir Sigurðsson og Konráð Kárason Þormar fóru til Raahe í Finnlandi
Við Ásgeir Sigurðsson og Konráð Kárason Þormar fórum til Raahe í Finnlandi þann 9.apríl 2018. Þegar að við lentum var tekið vel á móti okkur og var okkur skutlað upp í íbúðina okkar. Strax daginn eftir byrjuðum við að læra í Lybecker. Við byrjuðum á því að læra leikjahönnun og var það mjög gaman. Við hönnuðum og forrituðum okkar eigin leik og fengum að vinna mjög sjálfstætt. Námið í Finnlandi er mjög ósvipað því á Íslandi. Við vorum alltaf í sama faginu í heilan dag. Kennararnir kynntu verkefnin og svo fengu nemendurnir svo að fara að hugsa og vinna sjálfstætt. Eftir fyrstu vikuna þá fengum við að fara í starfsnám hjá stóru stálfyrirtæki sem heitir Miilukangas. Þar hittum við nemendur sem höfðu verið að vinna þar undanfarna daga í bæði grafískri hönnun og kvikmyndagerð. Starfsnámið var í 2 vikur og á því tímabili þá gerðum við 2. kynningarmyndbönd fyrir fyrirtækið. Það var erfitt en samt sem áður gaman og eflaði samskiptin okkar mjög mikið þar sem að það voru ekki margir í fyrirtækinu sem að töluðu ensku. Í Lybecker þá kynntumst við fullt af fólki. Við hittum nokkra stráka sem að sýndu okkur skólann og urðum mjög góðir vinir. Við hittumst stundum um helgar og spiluðum tölvuleiki og fórum að borða saman á daginn og enn í dag á Íslandi tölum við ennþá við þá. Okkur langaði virkilega að sjá nýju Avengers bíómyndina en hún var í bíóhúsum sem voru í klukkutíma fjarlægð. Við töluðum við vini okkar og þeir sögðu að það yrði ekkert mál og að þeir myndu skutla okkur og koma með okkur á hana. Við fórum til Oulu sem er klukkutíma frá Raahe og fengum okkur að borða þar og fórum í bíó. Það var mjög gaman að koma í bæinn og kynnast menninguni þarna í stærri bæ heldur en Raahe. Síðustu vikuna okkar í Raahe var svokallað “pop – up shop” í Lybecker þar sem að fólk frá Eistlandi, Spáni og Ítalíu komu og settu upp sölubás með vörum sem þau hafa unnið á í nokkrar vikur. Við fengum að taka þátt í þessu ferli og gerðum myndband fyrir Lybecker sem að sýndi stemminguna og hvernig sölubásinn fór fram. Það var mjög skemmtilegt verkefni og fengum við að kynnast mörgu fólki frá mismunandi löndum. Í lok vikunar þá hittumst við öll og spiluðum. Við strákarnir fórum allir saman í saunu og stukkum svo í sjóinn eftir á. Þessir síðustu dagar í Raahe voru mjög skemmtilegir og fjölbreyttir. Við erum ánægðir með reynsluna og að hafa fengið tækifæri til að fara þangað út og kynnast þessu fólki. Þessi reynsla var mjög þroskandi og við lærðum mikið á því að búa einir. Okkur finnst eins og að þessi ferð hafi eflt sjálfstæði okkar og hjálpað okkur að vinna meira í fjölbreyttri og skapandi vinnu. Við þökkum Erasmus+ og Borgarholtsskóla fyrir þessa ferð og vonum á að fá að vinna aftur með þeim í framtíðinni