Þóra Lárusdóttir segir frá námskeiði í Flórens.
Erasmus námskeið
Í júní síðastliðnum sótti ég námskeið á vegum Erasmus í Flórens á Ítalíu. Námskeiðið stóð í fimm daga og bar yfirskriftina: „Student- centered Classroom: Teachers as promoters of active learning.“
Þátttakendur á námskeiðinu voru frá Póllandi, Finnlandi og Króatíu og voru átta talsins allt konur á ýmsum aldri. Ég var aldursforseti og það er nú ekki slæmt á Ítalíu – eiginlega virðingarstaða barasta! Vegna þess hve hópurinn var lítill skapaðist notaleg stemmning og við héldum meira og minna hópinn allan tímann sem á námskeiðinu stóð.
Skólinn er í göngufæri við dómkirkjuna og því stutt að fara í hringiðu túrismans eftir að skóla lauk á daginn. Kennt var frá kl. 9 – 14 og þá fórum við nemendurnir saman út á næstu trattoríu og fengum okkur að borða, fórum svo á söfn ( og það er sko nóg af þeim í Flórens ) eða aðrar skoðunarferðir og borðuðum svo aftur saman á kvöldin.
Kennarinn, Silvia, er sprenglærð amerísk kona sem er gift ítölskum manni og hefur búið á Ítalíu í mörg ár. Hún hefur sérhæft sig í því sem á ensku er kallað Project Based Learning – a Student-Centered approach. Sú kennsluaðferð miðar að því að virkja nemendur sem allra mest, fá þá t.d. til þess að velja sér verkefni, stjórna umræðum og leggja mat á eigin frammistöðu. Hafi kona haldið hún sæti í makindum og hlustaði á fyrirlestra á þessu námskeiði var hún á villigötum því í anda fyrrnefndrar kennsluaðferðar lét Silvía okkur vinna saman í pörum og búa til okkar eigin verkefni sem gætu orðið grundvöllur að frekari samstarfi okkar á milli. Ég vann með kennara frá Króatíu að verkefni sem tengist landafræði og skyldleika indó – evrópskra tungumála. Hér erum við að kynna verkefnið fyrir samnemendum.
Þetta námskeið var mjög áhugavert og skemmtilegt. Það var gagnlegt að kynnast nýjum hugmyndum, fá hlekki á ýmsar vefsíður og síðast en ekki síst var lærdómsríkt að kynnast kennurum frá öðrum löndum og deila með þeim reynslusögum úr skólastarfinu. Sérstaklega var athyglisvert að heyra frá finnsku kennurunum og sjá að það eru sömu vandamálin alls staðar: foreldravandamál, agavandamál og óhófleg símanotkun í tímum svo eitthvað sé nefnt.
Námskeiðinu lauk á skoðunarferð um Toscana hérað og var farið til Sienna og á vínsmökkunarbúgarð.
Á heildina litið var þetta stórskemmtilegt og gagnlegt námskeið sem kveikir í konu áhuga á að prófa nýjar aðferðir við nálgun námsefnisins og ekki síst að þróa áfram jafningjamat og virkni nemenda. Ég mæli eindregið með því að sem flestir drífi sig í endurmenntun á vegum Erasmus.
Þóra Lárusdóttir.