Aventus heimsókn Hreins, kennara í bílgreinum

  

Mig langar að segja ykkur frá “Job Shadowing” heimsókn minni til Hollands á vegum Erasmus+, ég fór til Apeldorn í verknámsskólann Aventus. Ég kenni bifvélavirkjun hér í Borgarholtsskóla en í bíladeildinni er verið í námskrárvinnu. Hluti af þeirri vinnu er að kynna sér hvernig farið er að í öðrum löndum og var tilgangur heimsóknarinnar til Hollands  að fylgjast með hollenskum bíliðnakennurum að störfum. Í Aventus, skólanum sem ég fór í, hefur bifvélavirkjun verið kennd síðan 1965.

Staðsetning

Aventus skólinn „minn“ er í Apeldorn, um klukkustundarakstur austur af Amsterdam.  Apeldorn er 160 þúsund manna bær, blái flekkurinn á kortinu er þjónustusvæði skólans.

Skólahúsnæðið

Skólahúsið, sem er á á fjórum hæðum auk kjallara, er 10 ára og er það frá upphafi skipulagt til kennslu verkgreina. Á fyrstu hæðinni er mjög hátt til lofts en skólinn er stærri að grunnfleti en fótboltavöllur. Fyrsta hæðin er hönnuð þannig að auðvelt sé að koma inn viðfangsefnum eins og dráttarvélum, vörubílum, lyfturum og öðrum stórum hlutum inn og út.

Skólinn er staðsettur við Laan Der Menschenrechte í Apeldorn, það eru innan við 100 metrar í lestarstöð, strætó og hópferðamiðstöð, en það er stefna stjórnvalda að skólar af þessu tagi, svæðisbundnir verknámsskólar skuli vera á eða við samgönguæðar.

Tölulegar upplýsingar

Um 10000 nemendur eru í skólanum, starfsmenn eru 1000. 450 nemendur eru í bifvélavirkjun og kennarar í bifvélavirkjun eru 30. Árleg velta skólans er um 80 milljónir evra.

Nám í boði

Ég var furðu lostinn yfir námsframboði og fannst margar námsleiðirnar ákaflega spennandi. Það eru 200 mismunandi námsleiðir í skólanum, allskonar námsstig, hægt er að öðlast starfsréttindi eftir eins árs nám, ekki ósvipað og þekkist á Norðurlöndunum.

Deildin sem ég „vinnu skyggði“ sérstaklega var: Tækni og farartækjasvið. Þar er boðið upp á nám eins og:

  • Almennt tækninám
  • Rafvirkjun
  • Húsgagnasmíði
  • Kælitækni
  • Rannsóknarstofutækni
  • Framleiðslutækni
  • Málning og skreytitækni
  • Vélvirkjun og málmsmíði
  • Bílgreinastjórnun
  • Bíltækni
  • Bílasölur
  • Landbúnaðartækjatækni
  • Samgöngur og flutningar

Mín tilfinning

Andinn í skólanum var góður og voru nemendur og kennarar brosmildir og til í að spjalla. Agi var góður og regla á öllum hlutum, nemendur vissu til hvers var ætlast af þeim. Til mikils er ætlast af kennurum líka, bæði í utanumhaldi og viðveru. Fæstir nemendur eru í vinnu með skóla, námið er full vinna!

Til að vinna bug á brottfalli eru við skólann starfandi tveir félagsráðgjafar. Það er skylda nemenda og kennara að tilkynna um nemendur sem eru í vandræðum. Það er talað við viðkomandi, fundið út hvernig skuli leysa vandann, áætlun gerð og síðan er fylgst með framvindunni.  Brottfall er aðeins um 7%.

Snyrtimennska í og við skólann til fyrirmyndar, reykingar og „pú“ bannað í skólanum og aðeins umborið á vissu svæði á skólalóðinni, þar var stubbaaðstaða.

Námið sjálft

Frábær aðstaða er í skólanum til kennslu í bifvélavirkjun. Námið er á 4 aðskildum stigum (e. Level). Hvert stig eða level tekur 1 ár

Level 1 Kennarar og foreldrar treysta þér ekki til að verða fullgildur bifvélavirki, nemandinn starfar sem aðstoðarmaður á verkstæði undir stjórn bifvélavirkja.

Level 2 Grunnám bifvélavirkjunar, fyrir þá nemendur sem koma til með að geta starfað við almenn viðgerðarstörf. Nemendur vinna á almennum bílaverkstæðum, Quick fix, smurstöðvum og dekkjahöllum.

Level 3 Er fyrir þá nemendur sem geta að lokinni skólagöngu starfað sem bifvélavirkjar þeir eru hæfir til almennrar bilanagreininga í vél, gírkassa og drifi.

Level 4 Er fyrir þá sem líklegt er að munu vinna sem tæknimenn á verkstæðum, geta bilanagreint erfiðar raf- og vélbilanir. Þessir nemendur hafa líka þjálfun sem millistjórnendur eða stjórnendur á bílaverkstæðum. Þeir geta jafnframt hafið nám á háskólastigi.

Nemendur sem ætla að fara á 4. stig hafa um tvær námsleiðir að velja:

BOL: 20 – 60% verklegt nám fer fram í skólanum með skipulögðum vinnudögum á verkstæðum úti í atvinnulífinu, oft 4 dagar í skólanum og 1 á verkstæði. Námstími 4 ár. Námskostnaður 3,100 € ( + fartölva)

BBL: 60% verklegt nám á verkstæði, 1 dagur vikulega  í skólanum við fræðilegan hluta námsins. Námsstími 2 – 4 ár Námskostnaður u.þ.b. 350 € (+ fartölva)

Það sem vakti mestann áhuga minn fyrir utan hefðbundið nám voru eftir talin verkefni:

Félagsleg verkgreinakennsla: Nám fyrir þá sem eiga undir högg að sækja, ungs fólks í ýmisskonar vanda sem voru í félagslegum úrræðum (sinni foreldrar ekki börnum eru þeir sektaðir og ef því er ekki sinnt eru börn í raun dæmd af foreldrum sínum og eru á ábyrgð félagsmálayfirvalda). Aventus tekur þátt í verkefni sem miðar að því að þetta unga fólk verði nýtir þjóðfélagsþegnar með því að læra iðn, til dæmis reiðhjólaviðgerðir eða bifvélavirkjun. Nemendur eru á námsstyrk meðan á námi stendur en þurfa að gera grein fyrir tíma sínum, hvað þeir gerðu hvern dag í skólanum (það reynist sumum ákaflega erfitt).

Aventus er líka með tilraunaverkefni styrkt af svæðisstjórn menntamála sem þeir kalla

Techfunity.  Þetta er Lausnaleitar miðað nám, verkefni til tveggja ára þar sem nemendum sem eru með námsörðugleika eins og lesblindu gefst kostur á að stunda nám þar sem áhersla er á verkinu sjálfu, biluninni, og fagið lært út frá bilunum sem geta orðið. Verkefnin, bilanirnar koma af götunni.  Mikil áhersla á samstarf og samskipti milli nemenda, einnig samskipti við viðskiptavini. Kennarinn sem sér um mikinn hluta námssins er enskukennari og þar er áhugaverður hluti, nemendur þurfa sjálfir að leita sér upplýsinga um eðli bilana og hvernig á að gera við.

Ég hreyfst líka af tilraunaverkefni sem verið var að keyra til tveggja ára, kennsla innflytjenda í sér bekkjum. Þeir voru með bekk sem í voru 14 nemendur af þrem þjóðernum, tvo bíliðnakennara og tungumálakennara. Nemendur og kennarar virtust sérlega ánægðir með námsframvindu.

Þakkir

Ég get vart lýst því hve ánægður ég er að fá að skoða svona skóla og vil þakka Kristveigu, Marín og Ársæli fyrir stuðninginn. Hollendingunum Durk van Wieren fyrir frábært skipulag Henk Garssen, Bert Jimmnik, Richard van Bosch, Richard Rabelink, Laurensz Rötgers og Wim Heurneman fyrir að leyfa mér að fylgjast með þeirra frábæra starfi.

Heimkominn er ég uppnuminn af því sem ég upplifði, margt af því sem ég sá og nam er ég enn að melta, en hugmyndirnar munu skila sér í námsskrárvinnu þeirri sem er framundan.

Hreinn Ágúst Óskarsson