Króatía, starfskynning kennara
Skólaheimsókn í verknámsskólann Strojarska i promentina skola í Króatiu vikuna 18-22. mars.2019.
Flogið var með WOW til Frankfurt og þaðan til Zagreb þar sem við vorum sóttir af Darkó kennara á bíl frá skólanum, mjög góð þjónusta.
Fyrsta daginn var kynning í bókasafni skólans. Þó nokkuð af kennurum skólans voru viðstaddir. Snjezana, sem var tengiliður okkar í heimsókninni, stýrði kynningunni. Eftir að kynningu lauk fórum við í fylgd Önu (Ana). Byrjað var að fara með okkur þar sem kennsla í málmsteypu fer fram en enginn kennsla var í gangi. Skólinn lætur nemendur smíða vatnsdælur sem síðan eru seldar til að afla fjár til reksturs skólans. Næst lá leið okkar í verknámshús þar sem verklegi þáttur ökukennslunnar fer fram en þar er ökunámi þó nokkuð öðruvísi háttað en hérlendis. Kennsla í olíuskiptum fór þannig fram að einn bíll var á lyftu, nemendur unnu tveir og tveir saman við að skipta um mótorolíu, olíusíu og loftsíu á meðan hinir sátu á stólum og fylgdust með. Síðan var skipt þar til allir voru búnir að framkvæma olíuþjónustu. Það vakti athygli að þarna sátu allir kyrrir, engir símar eða mas heldur fylgdust allir með. Í hinum hópnum var sýnikennsla við vélina og þar virtist vera minni agi og meira mas og læti og stafaði það væntanlega að hluta til af nærveru okkar aðkomufólksins í tíma hjá þeim. Þegar þessu var lokið fóru þær Ana og Snjezana með okkur í göngu um bæinn og í mat á eftir.
Á degi tvö tók tók Ana á móti okkur. Byrjað var á að skoða renniverkstæði þar sem nemendur voru að renna og fræsa það sem var búið var að steypa í vatnsdælurnar. Farið var í stofu þar sem verið var að kenna vélvirkjun og rennismíði. Þá lá leið okkar í kennslu þar sem verið vara að kenna vélteikningu í tölvuforritinu Inventor. Þá var okkur boðið að fara með kennara sem heitir Slavo og er reyndar maður Önu, út í fyrirtæki sem sjá um verknámshluta námsins. Í öðru þessara fyrirtækja er sérstök deild með kennara sem tekur við nemunum og sér um þá til að byrja með.
Eftir að hafa skoða þessi tvö fyrirtæki fórum við í mat. Þar á eftir skoðuðum við kastala sem er einn af þeim stóru í Króatíu og með þeim frægari, Kostwein.
Þriðja og síðasta daginn byrjuðum við hjá kennara sem var að kenna hönnun rafstýringa. Að því loknu fór Snjezana með okkur til Zagreb sem er höfuðborg Króatíu og sýndi hún okkur það sem hún taldi markverðast.
Vel var gert við okkur í ferðinni og voru allir þeir sem sáu um okkur almennilegir og vildu allt fyrir okkur gera. Dagarnir voru langir en við vorum mættir í skólann kl 07:30 á morgnana og var okkur skutlað á hótelið um 19:30 á kvöldin. Þetta var lítill skóli á okkar mælikvarða en kennslan var alveg til fyrirmyndar en sjálf skólabygginginn ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Aðalsteinn Ómarsson og Ingvar Birnir Grétarsson.