Valensia, Spánn – A & L
1. maí 2019 fórum við, Lára og Alexandra af stað í mánaðar skiptinám til Valensíu, Spáni. Við höfðum fengið skólavist á vegum Erasmus+ og leigt okkur íbúð nálægt miðbæ Valensíu fyrir dvölina.
Okkur leist mjög vel á íbúðina okkar þar sem hún var bæði nálægt miðbænum og mjög nálægt skólanum okkar.
Fyrsta verkefni þegar við komum á staðinn var að sjálfssögðu að finna mat, svo við fórum í leiðangur að næstu verslunarmiðstöð sem var aðeins tíu mínútna ganga í burtu, sem betur fer. Þar tókum við inn umhverfið og reyndum að muna sérstaklega eftir búðum og stöðum sem hentugt var að vita um.
Borgin sjálf var afskaplega falleg og fórum við í margar skoðunarferðir niður í gamla bæ, stundum nokkrum sinnum á dag til að fá smá pásu frá sólinni. Við skoðuðum ýmsa markaði, túristabúðir, gömlu kirkjuna og fleiri gamlar byggingar. ÖNNUR okkar hafði hjartað í að ferðast alla leið upp í kirkjuturninn, á meðan hin settist niður hálfa leiðina upp og fór ekki lengra. Þið megið geta ykkur til um hvor var hvað. Bestu eftirmiðdagarnir voru þeir sem við gátum bara komið heim úr skólanum, fengið okkur eitthvað snarl og farið svo niður í bæ að skoða okkur um.
Skólinn kom okkur töluvert á óvart því svo virtist sem enginn væri í raun og veru tilbúinn, né sérstaklega ánægð með að hafa okkur þarna. Það var einn kennari sem tók vingjarnlega á móti okkur fyrsta daginn og honum (Marc) erum við mjög þakklátar. Annars gerðum við fátt annað en að sitja og dúlla okkur í tímum þar sem aðrir kennarar töluðu litla sem enga ensku eða vildu ekkert sinna okkur. Hafandi sagt það þá nýttum við þess í stað tímann utan skóla bara ennþá betur. Þó svo að við vinguðumst ekkert sérstaklega við bekkjarsystkini okkar voru þau fullkomlega almennileg, og hjálpsöm ef nauðsyn var á.
Á meðan á dvölinni okkar stóð nýttum við líka tækifærið og smökkuðum hina ýmsu spænsku rétti svo sem paella, churros, patatas bravas og horchata. Einnig fórum við í eina ferð í dýragarðinn mikla sem innihélt allt frá mörðum til fíla, gíraffa og górilla. Svo fórum við í sérstaklega skemmtilegan og eftirminnilegan túr upp í fjallgarðana fyrir utan Valensíu og syntum í heitri laug og skoðuðum hella. Á leiðinni til baka stoppuðum við á veitingastað sem var staðsettur hálfa leið upp eitt fjallið svo útsýnið var vægast sagt magnað.
Lára: Mín persónulega reynsla af þessari ferð var bæði erfið en mestmegnis alveg ógurlega skemmtileg og þroskandi. Ég lærði margt bæði um spænska menningu og æfðist í að ferðast í pari og varð ennþá lægnari í að finna út úr hlutum upp á eigin spýtur. Sambúðin með Alexöndru gekk vel, og í raun betur en ég hefði getað óskað. Mörg hlátursköst voru tekin, margar kósý kvöldstundir hafðar og bara almenn notalegheit. Þó svo að þessi upplifun hafi bæði haft sínar hæðir og lægðir, þá er ég glöð að hún átti sér stað og er þakklát fyrir að geta kallað Lexu eina af mínum bestu vinkonum í dag.
Alexandra: Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið þetta frábæra tækifæri til að ferðast, upplifa nýja menningu, kynnast sjálfri mér betur og fá smá sól í leiðinni. Þessi upplifun var mjög þroskandi, í raun lærði ég meira en ég hafði nokkurn tímann reiknað með, en þá helst var það um sjálfa mig. Ferðin var í rauninni bara einn stór rússíbani af ýmiskonar reynslu, en þá vorum við bara mjög fegnar að hafa hvor aðra til að styðjast við.