Skiptinám til Spánar – Bílamálun
Nemendur í bílamálun : Guðríður Ósk Steinarsdóttir og Guðrún Helga Tryggvadóttir. Fórum til San Sebastian á Spáni 21 september til 23 október 2019.
Í byrjun ársins 2019 þá fengum við þá hugmynd að það væri gaman að skella okkur í skiptinám á vegum skólans. Vorum búnar að heyra um Erasmus+ áður frá öðrum nemendum og að þetta gæti verið mjög skemmtilegt. Við sóttum um það og fengum að fara til San Sebastian á norður Spáni, það heillaði strax að geta farið til heitra landa og fara í hálfgert frí í leiðinni.
Við lögðum af stað 21 september með tveimur kennurum í bílamálun og bifvélavirkjun. Þeir Sigurjón og Björgvin dvöldu með okkur á Spáni í viku og fóru síðan heim til Íslands. Það munaði helling að fá tvo kennara með sér út í nokkra daga á meðan við vorum að kynnast kennurum úti á Spáni og koma okkur vel fyrir. Fyrsta vikan var mjög skemmtileg þar sem að við fórum t.d. út að borða, skoðuðum okkur um í bænum, skoðuðum cider hús/safn þar sem allt er gert úr eplum, allskonar drykkir. Við heimsóttum líka Michelin dekkjaverksmiðju. Eftir þessa viku fóru kennararnir okkar heim til Íslands og við héldum ævintýrinu okkar áfram næstu 3 vikurnar.
Skólinn sem við vorum í heitir Don Bosco og var í litlum bæ sem heitir Errenteria. Við vorum 7 mín. með lest frá heimavistinni sem við dvöldum á í San Sebastian. Við vorum í skólanum hálfan daginn eins og við erum nú þegar hérna á Íslandi. Í skólanum náðum við ekki mjög miklum samskiptum við nemendur þar sem að þau töluðu bara spænsku og skildu litla ensku. Við náðum góðum tengslum við þá kennara sem voru með okkur þar sem þeir kunnu ensku. Þó að enskan væri ekki 100% þá náðum við að skilja þá og þeir okkur. Verkefnið sem við fengum í skólanum var að laga einn BMW sem skólinn átti og gekk það bara vel. Einnig náðum við að hitta nemendur sem voru í ensku tímum og spjalla við þau um Ísland og San Sebastian. Við fengum að vita hvaðan þau væru og hvað þau væru að læra og þess háttar. Í lokin gerðum við kynningu um Ísland og höfðu þau öll mikinn áhuga á því. Skóladagarnir voru fljótir að líða og eftir skólann vorum við frjálsar okkar ferða.
Við reyndum alltaf að finna okkur hluti til þess að gera. Meðal annars fórum við að skoða þessar 3 strandir sem eru í San Sebastian, þær heita La Concha , Zurriola og Ondarreta. Við löbbuðum um allan miðbæinn og fórum í margar búðir sem voru þar. Við fórum í litla lest sem keyrði um bæinn og sýndi helstu áhugaverðu staðina og sögð var sagu af bænum. Við fórum í skemmtigarð sem heitir Monte Igueldo þar sem var einnig flottasta útsýnið yfir allan bæinn. Við náðum að gera mjög margt á þessum tíma og var ferðin heilt yfir mjög skemmtileg.
Við vissum ekki neitt um þennan stað fyrirfram nema það sem við vorum búnar að googla á netinu eftir að við vissum hvert við værum að fara. Heilt yfir vorum við mjög ánægðar með ferðina, skólinn var æðislegur og allir tóku mjög vel á móti okkur og vildu allt fyrir okkur gera. Heimavistin sem við vorum á var fín nema við náðum ekki að elda okkur mat þar sem hver nemandi þurfti að vera með sín eldhús áhöld, það vissum við ekki fyrirfram þannig við björguðum okkur bara út mánuðinn.
Mælum með að allir nemendur sem hafa áhuga að ferðast til annara landa og prufa nýjan skóla, að sækja um svona erlent samstarf. Við sjáum alls ekki eftir þessari ferð okkar og erum þakklátar fyrir þetta tækifæri.