Nemar í grafískri hönnun voru í Finnlandi
Við fórum til Finnlands í mánaðar skiptinám sem var ein besta og eftirminnilegasta upplifun sem við höfum átt okkar 19 ár. Við vorum í litlum smábæ að nafni Porvoo og var hann í klukkutíma fjarlægð frá Helsinki. Bærinn sjálfur er einn elsti bær í Finnlandi og voru því byggingarnar þar og söfnin alveg hreint ótrúleg. Húsið sem við gistum í var til að mynda byggt í kringum 1840. Við fengum að kynnast finnskri skólamenningu í skólanum Careeria. Þar vorum við á braut sem kallast Media Department. Við vorum í grafískri hönnun og lærðum ýmislegt á þessum stutta og skemmtilega mánuði. Við fengum að kynnast því hvernig er að vinna með stærri tæki sem almennt eru staðsett á auglýsingastofum og við lærðum allskonar nýtt í tölvum og í forritunum Illustrator, Indesign, Photoshop og Premiere Pro. Kennararnir í Careeria voru hreint út sagt frábærir. Þeir tóku á móti okkur með opnum örmum og okkur leið aldrei eins og við værum óvelkomnar. Það var töluð enska við okkur sem gekk vel jafnvel þótt Finnar geti verið feimnir með enskuna. Við kynntumst krökkum, lærðum margt nýtt, upplifðum öðruvísi menningu og fengum að taka þátt í ótrúlega skemmtilegu ævintýri sem við munum alltaf muna eftir. Fyrstu dagarnir fóru í að koma okkur fyrir í Airbnb íbúðinni okkar, versla mat, labba um bæinn og skoða okkur um. Þegar fyrsti skóladagurinn byrjaði vorum við sóttar upp að dyrum og okkur var sýnd besta leiðin til að komast í skólann. Fyrsti dagurinn fór svo í að kynnast kennurunum, skoða skólann og fara yfir námsáætlun okkar fyrir næsta mánuðinn. Við fórum alsælar heim þennan dag og biðum spenntar eftir næstu skóladögum.
Í fyrstu vikunni okkar í skólanum lentum við í árlegri keppni sem er haldin í skólanum. Þar koma krakkar úr yngri deildum og keppast um að klára ákveðin verkefni frá ákveðnum brautum skólans á sem styðstum tíma. Við fengum að taka ljósmyndir af keppninni og krökkunum sem stóðu sig ótrúlega vel. Þannig fyrsta vikan fór í undirbúning fyrir keppnina, keppnina sjálfa og tiltekt. Í viku númer tvö tók við að gera kynningu um okkur, Borgarholtsskóla og Ísland. Við kynntum svo fyrir krökkunum til að það væri auðveldara að byrja samræður og eignast vini. Kynningin gekk eins og í sögu. Við byrjuðum svo á grafísku hönnunar verkefni. Við áttum að gera tvö dagatöl. Annað þeirra átti að vera fyrir skólann og hitt átti að vera fyrir íbúa Porvoo. Við gerðum fullt af skemmtilegum verkefnum á þessum fjórum vikum, meðal annars þessi fyrrnefnd dagatöl, nælur með okkar eigin hönnun á, lógó og myndband úr ferðinni í heild sinni.
Við gerðum margt skemmtilegt og áhugavert í frítímanum okkar og nýttum hann til fulls. Við fórum á fullt af söfnum meðal annars safn um þjóðskáld Finnlands sem heitir Johan Ludvig Runeberg. Safnið var fyrrum heimili hans og hefur það verið ósnert síðan hann bjó þar. Síðan fórum við á listasafn í Helsinki sem heitir Museum of Contemporary Art Kiasma. Það var mjög öðruvísi en öll söfn á Íslandi en það var risastórt og á fimm hæðum með fullt af mismunandi sýningum í gangi, meðal annars sýning eftir íslenska listamanninn Ragnar Kjartansson. Við fórum og skoðuðum gamla bæinn í Porvoo sem var byggður fyrir um 600 árum. Það hefur lítið sem ekkert verið gert við bæinn nema venjulegt viðhald á húsunum. Það var ótrúlega gaman að ganga um gamla bæinn og skoða litlu krúttlegu litríku húsin. Við eyddum líka fyrstu vikunni mikið í að labba um Porvoo og reyna að rata. Við fórum síðan tvisvar sinnum til Helsinki sem var mjög gaman. Helsinki er ótrúlega flott borg. Það er pínu erfitt að rata vegna þess að öll skilti og leiðbeiningar eru einungis á finnsku eða sænsku. Þar skoðuðum við gamlar byggingar, t.d. Helsinki Cathedral sem er kirkja og upplifðum finnska menningu. Við nýttum líka ferðina og versluðum pínu. Við kynntumst finnskum krökkum sem leyfðu okkur að upplifa hvernig er að vera unglingur í Finnlandi. Þau fóru meðal annars með okkur á kaffihús, út að borða og á finnska tónleika. Eins og sjá má héldum við okkur uppteknum allan tímann enda var nóg að gera og margt að skoða. Þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun sem mun nýtast okkur alla ævi. Við erum virkilega þakklátar fyrir þetta einstaka tækifæri.
Takk fyrir okkur, Ásrún Anna og Katrín Agnes.