Dvölin okkar í Lybecke, Raahe í Finnlandi

 

 

Upplifun okkar af skiptinámi í Raahe

 

Við Lovísa, Kristófer Ingi og Alex Snær erum  nýlega komin heim eftir mánuð í  Finnlandi. Við fengum það skemmtilega tækifæri að ferðast til smábæjar í Finnlandi sem kallast Raahe og taka þátt í skiptinámi þar. Kristín María, kennari í Borgarholtsskóla, var með okkur fyrstu vikuna úti og var mikill stuðningur í því. Eitt sem kom mikið á óvart var líkindin milli Raahe og Reykjavíkur. Andrúmsloftið í Raahe og hér er mjög svipað fyrir utan það að allt er rólegra í Raahe. Raahe minnir svolítið á Reykjavík fyrir nokkrum árum, fyrir ferðamannastrauminn mikla. Allir sem við kynntumst í Raahe voru mjög viðkunnalegur. Sá sem við kynntumst nánast úti var kennarinn Pekka, en hann sér um alþjóðleg samskipti skólans  í Finnlandi (starfsheitið hans er International Coordinator). Pekka var einstaklega hjálpsamur og gestrisinn. Hann lánaði okkur meðal annars hjól, sem gerði okkur kleift að komast mjög fljótlega til og frá skóla og að skoða bæinn á eigin fótum. Einnig voru heimamenn mjög fúsir til þess að hjálpa okkur að kynnast betur og sjá meira af Finnlandi, við fengum meðal annars að slást með í ferðir til Rovaniemi (heimili jólasveinsins), Oulu og meira að segja Svíþjóðar. Hvaða spurningum sem brunnu á okkur svaraði Pekka fljót- og nákvæmlega. Síðaðasta daginn okkar bauð hann okkur óvænt í mat heim til fjölskyldu sinnar. Þar fengum við að smakka ekta heimagerðan, finnskan mat og spjalla  um finnska menningu. Við bárum saman finnska og íslenska menningu og var það skemmtilegt og áhugavert. Matarboðið var mjög indælt og maturinn góður.

Að stunda nám í Lybecker var talsvert öðruvísi en í Borgarholtsskóla. Námið þar er öðruvísi skipulagt, nemendur eru í sama tíma allan daginn og sömu verkefnum oft viku eða lengur. Kennararnir virðast líka nota aðrar kennsluaðferðir en þeir kennarar sem ég hafði áður kynnst. Þeir kynna verkefnin vel fyrir nemendum sínum en svo taka þeir skref aftur og vinna nemendurnir sjálfstætt, en hafa kennarann ávallt til taks ef þarf. Það var mjög þægilegt að vinna í þessu kerfi, og virtust nemendur skila af sér mikilli og frumlegri vinnu. Aðstaðan í Lybecker er frábær og voru  algjör forréttindi að fá að nýta  hana. Skólinn býður upp á góð tölvurými fyrir nemendur til að nýta sér, og tölvurnar eru útbúnar fjölbreyttum og góðum forritum. Einnig hafa þeir nemendur sem stunda nám í hreyfimyndagerð frábæra teikniskjái til þess að vinna við. Eitt aðdáunarvert við námið Lybecker er það að kennarar leggja áherslu á það að undirbúa nemendur fyrir atvinnumarkaðinn. Þeir læra ekki aðeins að vinna á hin frábæru forrit sem skólinn býður upp á heldur einnig á frí forrit. Þannig eru þeir undirbúnir hvaða áskorunum sem kunna að mæta þeim þegar þeir koma á atvinnumarkaðinn, og eru tilbúnari til þess að nýta sér hvaða tækifæri sem bjóðast þeim. Við fengum öll að taka þátt í viku starfsnámi, Kristófer og Lovísa á safninu í Raahe en Alex á auglýsingastofu sem starfrækt er innan skólans. Þetta var spennandi tækifæri og erum við mjög þakklát fyrir það. Á safninu framleiddum við myndbönd sem safnið mun nýta sér í auglýsingaskyni.  Við unnum fyrir þau tvö auglýsingamyndbönd og eitt tónlistarmyndband, sem samansett var af myndefni sem við tókum af listaverkum frá barokktímabilinu í eigu safnsins og tónlist frá sama tíma. Að framleiða myndböndin gaf okkur líka tækifæri til þess að skoða safnið nánar, betur en venljulegir gestir gera. Starfsnámið var krefjandi en einnig mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Að vinna saman að myndböndunum þjálfaði hæfni okkar í skipulagningu, hópavinnu, og auðvitað myndabandavinnslu. Það kenndi okkur einnig að hugsa á lausna miðaðri hátt og að vinna vel fyrir ákveðinn skilafrest.

Við erum afar þakklát fyrir þá hæfni sem við fengum að þjálfa því hún mun gagnast okkur við margt í framtíðinni. Á auglýsingastofunni var Alex að setja saman æfingarmyndbönd fyrir Youtube og thumbnaila með. Mennirnir á stofunni voru mjög hjálpfúsir og sanngjarnir þegar kom að vinnunni. Öll  fengum við  klukkutíma í mat en byrjuðum kl: 09:00 á morgnana og kláruðum um kl: 15:00. Alex var búinn með öll verkefnin sem hent voru á hann á fimmtudeginum og mátti því fara fyrr. Á föstudeginum var stungið upp á að Alex gæti gert heimildarmynd um dvöl sína í Raahe en Alex náði aldrei að klára verkefnið. Alex heyrði það frá Pekka að mennirnir hefðu sagt  að Alex hefði gert 12 vikna vinnu á 1 viku. Reynslan á auglýsingastofunni minnkaði klippitíma Alex um nær helming sem hjálpar mjög mikið, þetta var klárlega mjög lærdómsrík og skemmtileg reynsla.

Að læra og lifa í erlendu landi í mánuð var mikil og dýrmæt reynsla.  Reynsla sem gerði okkur að sjálfstæðari einstaklingum og efldi sjálfstraust og bætti reynslu okkar þegar það kemur að skapandi vinnu. Við þökkum  Erasmus+ og Borgarholtsskóla  kærlega fyrir og  hlökkum til þess að sjá hvað framtíðin ber í skauti fyrir okkur.