Heimsókn til SCV Juan Comenius í Valencia á Spáni.

28. maí – 1. júní 2018

https://www.comenius.es/

Heimsókn til SCV Juan Comenius í Valencia á Spáni.
Kennarar: Guðrún Sigurðardóttir, Hrönn Harðardóttir, Karen Ösp Birgisdóttir, Soffía Grímsdóttir og  Theodór Karlsson.

Skólinn sem við heimsóttum í Valencia á Spáni heitir SCV Juan Comenius og þjónar hann nemendum á aldrinum 3ja – 20 ára. Skólinn var stofnaður árið 1982 og er í eigu 101 kennara skólans, en við skólann starfa alls um 140 starfsmenn. Í skólanum eru um 1500 nemendur og eru nemendur með sérþarfir í hverjum árgangi, hlutfall í bekkjum er 21 + 2 með sérþarfir, en gat verið hærra. Okkur fannst mjög áhugavert að sjá hvað allt skólastarf gekk vel og virtist vera áreynslulaust. Tónlist er spiluð í stað skólabjöllu og er skipt um stef á um tveggja mánaða fresti, það virkar vel og hefur róandi áhrif.

Það kom okkur á óvart að sjá hversu vel tókst til með blöndun fatlaðra og ófatlaðra í skólanum, en nemendur með sérþarfir fylgja sínum jafnöldrum frá 3ja ára bekk og upp alla skólagönguna. Við höfðum ekki þessa hugmynd um veru nemenda með sérþarfir í almennum bekkjum eftir samtölin okkar við kennarana. Nemendur með sérþarfir fara einungis úr tímum til að fara í sjúkra-, iðju-, eða aðra þjálfun sem þeir þurfa á að halda sem öll er innan veggja skólans.

Starfsnám er stór hluti af námi nemenda við skólann og um 13 til 14 ára velja nemendur sér hvaða starfsgrein þeir vilja fara í, en geta breytt síðar ef þeim sýnist svo. Skólinn er í góðu samstarfi við fyrirtæki sem þau senda nemendur til í starfsþjálfun auk þess sem þau eru einnig í samstarfi við erlend fyrirtæki og gera þannig nemendum kleift að æfa sig í erlendum samskiptum sem þjálfar enskukunnáttu þeirra. Helstu greinar í starfsnámi nemenda eru rafmagns- og raftækjafræði, ljósmyndun, hljóð- og myndvinnsla auk viðskipta- og stjórnunarfræði.

Aðstæður í skólanum voru mjög góðar, skólinn er mjög vel tækjum búinn til allrar kennslu og greinilega meira lagt upp úr nýjustu kennslutækjum en húsbúnaði og umhverfi skólans sem þó var notalegt og afslappað.

Hópurinn hélt til í miðborg Valencia og var því stutt á alla markverðustu sögustaði hennar. Við vissum ekkert annað um borgina en það sem hægt var að kynna sér á netmiðlum. Kennarar skólans skipulögðu skoðunarferðir á markverða staði sem var mjög fróðlegt og skemmtilegt að upplifa. Má þar nefna San Nicolàs, 16. kapellu Valencia, CACSA en þar hafa risið mjög nýtískulegar byggingar sem hýsa listir og vísindi. Gamli bærinn er mjög skemmtilegur og hittist svo vel á að við upplifðum kirkjulega hátíð; Corpus Christi sem var mjög hátíðleg með skrúðgöngum um bæinn.