Hákon Már Oddsson fór til Madridar

Ferðinni var haldið til Madridar í lok febrúar að skoða skóla IES Puerta Bonita og dvelja þar í viku frá 27. -31 febrúar 2020. Undirbúningur hvað varðar dagskrá og tilhögun gistingar var gerð í samskiptum við fulltrúa skólans, Raúl Martínez Ramón, en hann var duglegur að koma með ábendingar og fljótur að svara fyrirspurnum en samskipti voru á ensku. Ekki er beint flug til Madrid á veturna og var millilent í London. Þrátt fyrir úrval hótela þá þótti betri valkostur að taka á leigu Airbnb íbúð og eftir að skoða borgina og stúdera hana varð niðurstaðan að vera í Malasana hverfi sem er mjög miðsvæðis og kallað listamannahverfið og er það hverfi sem tengdist Movita hreyfingunni sem spratt upp eftir fráfall einræðsstjórnunar á síðustu öld og hvers forsprkki var m.a. kvikmyndaleikstjórinn Pedro Almodevar. Stutt var í samgöngur, búðir, kaffihús og töldust 12 vegan veitingastaðir innan við 10-15 mín göngu frá leiguíbúð. Ferðast var á sunnudegi og síðan mætt í skólann á mánudegi. Um tuttugu mínútu gangur er frá næstliggjandi metróstöð Oporto og hægt að taka strætó en ágætt að labba. Raúl tók vel á móti gestinum og hófst langur skoðunartúr um skólann og kíkt inní stofur og spjallað við nemendur og kennara. Skólinn skiptist í annars vegar grafík og prentmiðlun (graphic arts) og hins vegar kvikmyndagerð, ljósmyndun og hljóð (audio-visuals, image and audio). Skólinn er í gamalli risastórri byggingu sem var einhvers konar munaðarleysingja- og betrunarheimili á árum áður. Boðið var í mat í kaffistofu skólans sem er með heita rétti í hádeginu. Skólinn er verkmenntunarskóli, tvískiptur í prent og video í stórum dráttum. Flestir nemendur hefja nám um eða eftir 18 ára aldur eftir að taka „bachelor“ eða grunn í framhaldsnámi. Því er ekki kennsla í almennum bóklegum áföngum þar sem því er lokið. Mögulegt er að hefja nám um 16 ára aldur en það er sjaldgæft að sögn. Námið er til tveggja ára og allir nemendur fara í 3 mánaða starfsnám í fyrirtæki í lokin. Mikið af upplýsingum um skólann og uppbyggingu hans komu fram í skoðunarferðinni fyrsta daginn og ekki voru tök á að skrá það allt enda búist við að til væru einhver gögn á ensku sem reyndist svo ekki vera. Það voru einskonar skóhlífadagar á þriðju- og miðvikudeginum með fjölda fyrirlestra fagmanna og líka var mikið af fyrirtækjakynningum. Allt fór fram á spænsku og taldi Raúl að tímanum væri betur varið í menningarskoðun í borginni frekar en að fylgjast með fyrirlestrum á framandi tungumáli. Með góðan lista af tillögum að söfnum var úr nógu að moða. Söfn sem komu á óvart voru m.a. Thyssen, Sorolla og Museo de Arte Contemporáneo. Á fimmtudeginum tók José Herreros kvikmyndakennari við keflinu og nemendum hans fylgt í myndver þar sem þau æfðu sig í upptökum. Bæði er myndverið feiknarstórt og eins myndstjórnin og vel tækjum búin þótt eitthvað væri búnaður kominn til ára sinna. Nemendur keyrðu upptökuplan með innslögum og skiptust á hlutverkum. José sagði að í stærri verkefnum væri oft aðstoðarkennari en sá var veikur og því einn kennari þennan dag. Nú í kaffi- og matarpásu náðist að ræða um einkunnargjöf, kennslufyrirkomulag og kennsluefni og allt svipar þetta til þess sem tíðkast hjá okkur en forsendur samt ólíkar, bæði aðstöðumunur og svo skipulag. Meira var lagt uppúr að þjálfa nemendur en í Borgarholtsskóla er meira lagt uppúr frumkvæði nemenda en hluti af því er vegna aðstöðumunar. Eitthvað ræddum við José um kaup, kjör, stöðu og menntun kennara og er alltaf gagn og gaman að hitta kollega í öðrum löndum. Á föstudeginum var ákveðið að heimsækja fyrirtæki sem tekur nemenda í starfsþjálfun. Fyrir valinu var VAV Group sem er fyrirtæki sem er með risastór myndver 16.000fm og leigir einnig út OB bíla. Tvær sápur voru í upptöku og einnig var verið að smíða 4K upptökubíl fyrir 20 kamerur sem átti að nota í beina útsendingu á karnivalhátíðinni í vor. Upptökur voru í gangi á sápuóperunni El Segreto sem var á sínu níunda ári og ein lífseigasta sápan á Spáni. Eingöngu er tekið upp á þrem kamerum og upptökur klipptar eftirá og þannig hægt að ná miklu efni inn á hverjum degi en fjórir leikstjórar skipta með sér upptökunum. Í heildina séð var ferðin mjög vel heppnuð, erlendi fulltrúinn Raúl stóð sig hreint með ágætum sem og José kvikmyndakennarinn. Nemendur og starfsfólk voru jákvæð og samræðuglöð en tungumálaörðuleikar voru þó nokkrir. Öll aðstaða í skólanum til fyrirmyndar en tækjabúnaður nokkuð gamall og enn er unnið í standard video en þó verið að uppfæra í HD og 4K. Það sem þó bar af í skólanum voru vegleg stúdíó bæði fyrir grafíkina og kvikmyndagerðina. Einnig voru stórir vel útbúnir fyrirlestrasalir. Gamalli kirkju hafði verið breytt í samkomusal og var þar vítt til veggja og hátt til lofts. Tækjageymsla skólans fyrir kvikmyndagerðina voru fjórar álmur eða rekkar á tveim hæðum að hluta og öll tæki strikamerkt. Stórt ljósmyndastúdíó með ósýnilegum hórísónt var notað í ljósmyndakennslunni. Fjöldi hljóðvera með einangruðum upptökuklefum voru á víð og dreif en þau voru bæði notuð til að taka upp útvarpsþætti, dubba myndir, í fólý og til að taka upp tónlist. Minnisstæðast eru hin mikla og góða aðstaða í skólanum, hlýlegar móttökur, stórmerkileg borgin með sinni heimsmenningu. Kannski er febrúar ekki hlýjasti og sólríkasti tíminn í Madrid en lítið mál að klæða sig vel og kom sér vel að hafa regnhlíf á stundum. Hákon Már Oddsson